Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Með gildan samning og kjósa um samúðarverkfall

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Helmingur Eflingarfólks, sem greiðir atkvæði í næstu viku um ótímabundið verkfall, er með gildan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins. Greidd verða atkvæði um samúðarverkfall. Sveitarfélögin undrast að Efling hafi slitið kjaraviðræðum án þess að heyra sjónarmið þeirra.

Rúmlega 500 félagar í Eflingu greiða atkvæði í næstu viku um verkföll. Atkvæðagreiðslunni lýkur á laugardaginn 29. febrúar og þá ætti að skýrast hvort um 270 starfsmenn fimm sveitarfélaga, sem eru í Eflingu, fari í ótímabundið verkfall frá 9. mars.

Sérstakt að gera fólki upp skoðanir

Það kom sveitarfélögunum mjög á óvart að samninganefnd Eflingar skyldi slíta viðræðum í öðrum fundi þeirra með samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga í gær. Aldís Hafsteinsdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri Hveragerðisbæjar segir að samninganefndinni hafi ekki gefist ráðrúm til að bregðast við kröfum sem Efling hafi lagt fram: 

„Það náðist ekki því þau slitu viðræðum áður en að því kom.“

Framkvæmdastjóri Eflingar sagði í fréttum í gærkvöld að það sama virtist eiga við um Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg að erfitt væri að fá fram viðurkenningu á því að leiðrétta þyrfti laun þeirra lægstlaunuðu. 

„Mér finnst alla vega mjög sérstakt að gera okkur upp þær skoðanir en gefa okkur ekki tækifæri til að koma fram með okkar viðræðusjónarmið við samningsborðið. Því að það er það sem samningar ganga út á að fólk ræði saman og ræði sig til lausnar,“ segir Aldís. 

Segja samúðarverkfallið eiga stoð í lögum og félagsdómum

Hin atkvæðagreiðslan um verkfallsboðun í næstu viku gæti orðið snúnari. Hún er um ótímabundið samúðarverkfall 240 starfsmanna í 22 einkareknum leik- og grunnskólum sem allir eru í Reykjavík nema tveir. Samúðarverkfallið á að vera til stuðnings Eflingarfólki hjá Reykjavíkurborg, sem er í verkfalli. 
Þessir starfsmenn eru þegar með kjarasamninga, sem gerðir voru á síðasta ári við Samtök atvinnulífsins. Á þeim hvílir því svokölluð friðarskylda, sem þýðir að þeir mega ekki fara í verkfall til að knýja fram breytingu á eigin kjarasamningi. Í tillögu stjórnar Eflingar í gær um samúðarverkfallið er vísað í heimild til þess í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og enn fremur í þrjá dóma Félagsdóms frá 1975, 1947 og 1945. 

Ekki fengust viðbrögð frá Samtökum atvinnulífsins í dag. Fyrir ári stefndu samtökin Eflingu fyrir félagsdóm vegna verkfalla, sem beindust á hótelum og hópferðafyrirtækjum, og fólust í því að starfsmenn áttu aðeins að sinna hluta starfa sinna, ekki þrífa bíla eða taka við greiðslu fargjalds. Í þessum tilfellum dæmdi félagsdómur Samtökum atvinnulífsins í vil.