Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Með eindæmum góð frumraun

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Maggý - Alda

Með eindæmum góð frumraun

15.11.2019 - 11:51

Höfundar

Fyrsta plata Between Mountains er samnefnd henni og nú er um að ræða sólóverkefni Kötlu Vigdísar, en hún er plata vikunnar á Rás 2.

Between Mountains sigraði Músíktilraunir árið 2017 og var þá skipuð þeim Kötlu Vigdísi og Ásrósu Helgu. Í dag fer Katla ein fyrir verkefninu og samdi hún sjálf öll lög og texta á plötunni. Upptökur fóru fram bæði á Ísafirði og í Reykjavík hjá Arnari Guðjónssyni í Aeronaut Studios. Arnar og Katla útsettu í sameiningu. Inn á plötuna spila Valgeir Skorri Vernharðsson á trommur, bróðir Kötlu, Ásrós Helga Guðmundsdóttir á hljómborð, Vernharður Jósefsson, faðir Kötlu, á bassa og Katla sjálf syngur, spilar á gítar, hljómborð, harmónikku og fiðlu.

Lífsgleði og fjörgandi andi

Það er skýrt að í Kötlu er alveg gríðarlega mikið efni en hún er ekki nema sautján ára gömul. Þessi plata er þannig að upplagi, að það er hálf ótrúlegt að þetta sé frumraun hennar á breiðskífusviðinu. Lagasmíðar eru þroskaðar, hljóðheimurinn vel mótaður og áferð öll með miklum „fullorðins“-brag. Man ekki í svipinn eftir jafn sannfærandi fyrstu plötu, og þá sérstaklega þegar maður tekur tillit til aldurs. Katla og Ásrós hafa reyndar síst setið með hendur í skauti eftir sigurinn góða, hafa verið iðnar við kolann hvað hljómleikahald, myndbandagerð og upptökur varðar.

En hvar erum við stödd tónlistarlega? Um er að ræða einslags nýbylgjupopp, með áhrifum héðan og þaðan. Eivör kemur í hugann, en hún hafði gríðarlega mikil áhrif á Kötlu í árdaga. Skandinavískar prinsessur eins og Agnes Obel og Susan Sundför. Nýrri listamenn eins og Sharon Van Etten og Aldous Harding. Íslendingar eins og Björk og Sóley. Pabbarokk að hætti R.E.M. og Cure. Maður heyrir þetta flögra um í hljóðrásunum, en úrvinnslan er ætíð frumleg og þjónar ávallt sýn Kötlu. Sum nöfnin sem hér eru nefnd eru í myrkradufli en þannig væri seint hægt að lýsa Between Mountains. Lagasmíðar Kötlu eru bjartar og upplyftandi, þræddar með lífsgleði þess fjörgandi anda sem situr í okkur tiltölulega ómótuðum unglingunum. Það er eins og Katla standi þarna nákvæmlega á milli. Ennþá það ung að viss hreinleiki rennur um tónlistina en það klár, þroskuð og hæfileikarík að barnslegir taktar eru nú löngu fyrir bý. Merkilegt.

Það er óþarfi að telja upp einstaka lög og rýna í þau. Heildarmyndin er einkar sterk verður að segjast og platan mjög stöndug. Ég er eðli málsins samkvæmt spenntur fyrir framhaldinu. En hvað sem verður, er þetta framlag eitt og sér nægileg sönnun á óskoruðum hæfileikum þessarar ungu tónlistarkonu.

Tengdar fréttir

Tónlist

Marglaga og móðins

Menningarefni

Einlægt, óskrifað blað

Popptónlist

Með heiminn á herðunum

Popptónlist

Blúsað og rokkað