Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

MDE segir Landsrétt ólöglega skipaðan

12.03.2019 - 09:01
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Dómaraskipun Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra í Landsrétt braut gegn 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um rétt einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þessari niðurstöðu nú klukkan 9, eða 10 að staðartíma í Strassborg í Frakklandi. Íslenska ríkið greiðir um 15 þúsund evrur eða rúmlega tvær milljónir króna í málskostnað.

Málið snýst um hvort að Arnfríði Einarsdóttur hafi verið heimilt að dæma í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar vegna ólögmætrar skipunar hennar. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Guðmundar Andra, taldi að vegna skipun hennar hefði skjólstæðingur sinn ekki hlotið réttláta og sjálfstæða málsmeðferð fyrir óvilhöllum dómstóli sem sé skipaður af lögum. Mannréttindadómstóllinn tekur undir þetta. 

Þegar Landsréttur tók til starfa þann 1. janúar í fyrra krafðist lögmaðurinn Vilhjálmur að Arnfríður Einarsdóttir yrði dæmd vanhæf vegna skipunarinnar við réttinn. Vilhjálmur var verjandi Guðmundar Andra Ástráðssonar sem var ákærður fyrir margvísleg umferðarlagabrot og brot á reynslulausn. 

Krafa Vilhjálms var meðal annars rökstudd með vísan til nýlegs dóms Evrópudómstólsins þar sem skipun dómara í starfsmannarétt dómstólsins var talin ólögmæt og gæti hún því leitt til þess að dómar hans yrðu ómerktir. Þá var einnig vísað til dóms EFTA-dómstólsins þar sem talið var að annmarki væri á skipun norsks dómara. Þá vísaði Vilhjálmur einnig í dóma Hæstaréttar í málum Ástráðs og Jóhannesar Rúnars. 

Kröfuna lagði Vilhjálmur fram í byrjun febrúar en samkvæmt lögum úrskurða dómarar í Landsrétti sjálfir um sitt eigið hæfi. Arnfríður og tveir aðrir dómarar komust að því að Arnfríður væri ekki vanhæf. Vilhjálmur kærði niðurstöðu dómaranna sem staðfesti niðurstöðu Landsréttar og því ákvað Vilhjálmur að kæra málið til Mannréttindadómstólsins. 

Ólögmæt skipun í Landsrétt

Málið snýst upphaflega um skipun dómara í Landsrétt. Í byrjun maí birtist listi dómnefndar yfir þá sem nefndin hafði metið hæfasta til að sitja í Landsrétti. 15 voru metnir hæfastir fyrir þær 15 stöður sem í boði voru. Í lok maí afhenti Sigríður Andersen kynnti forseta Alþingis tillögu sína að skipun í embætti 15 dómara. Fjórir umsækj­endur af þeim 15 sem nefndin hafði talið hæfasta voru ekki á listanum og í þeirra stað voru fjórir aðrir menn settir á list­ann.  

Þeir fjórir sem teknir voru af listanum voru Ástráður Haraldsson, Eiríkur Jónsson, Jón Höskuldsson og Jóhannes Rúnar Jóhannsson. Ástráður og Jóhannes Rúnar leituðu réttar síns vegna þessa og komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ráðherrann hefði brotið stjórnsýslulög með því að skipa þá ekki og voru hvorum þeirra dæmdar 700 þúsund krónur í miskabætur. Jón Höskuldsson og Eiríkur Jónsson leituðu einnig réttar síns eftir þessa niðurstöðu Hæstaréttar og var íslenska ríkið dæmt til að greiða þeim skaða- og miskabætur. 

Þeir fjórir dómarar sem komu í stað fjórmenninganna voru Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Jón Finnbjörnsson og Ragnheiður Bragadóttir. 

 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV