MDE fjallar um fjárfestingar hæstaréttardómara

Frá þingsetningu 6. desember 2016.
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Mannréttindadómstóll Evrópu ætlar að fjalla um fjárfestingarumsvif tveggja íslenskra hæstaréttardómara. Ólafur Ólafsson, athafnamaður og einn aðaleigandi Kaupþings kærði þá Markús Sigurbjörnsson og Árna Kolbeinsson vegna fjárfestingarumsvifa í aðdraganda bankahrunsins 2008.

Fréttablaðið greinir frá því í dag að Mannréttindadómstóllinn (MDE) hafi sent málsaðilum bréf þess efnis fyrr í þessum mánuði að kæra Ólafs verði tekin fyrir. Þar er þess óskað af íslenska ríkinu að það reyni að ná samkomulagi við Ólaf vegna dóms í Al-Thani málinu.

Ef ekki nást sættir fyrir 2. desember mun Mannréttindadómstóll Evrópu halda áfram umfjöllun sinni um málið og taka það til frekari efnismeðferðar.

Áttu í bönkunum og dæmdu í Al-Thani málinu

Þeir Markús Sigurbjörnsson, fyrrverandi forseti Hæstaréttar, og Árni Kolbeinsson voru meðal þeirra dómara sem dæmdu í Al-Thani málinu svokallaða. Þar var Ólafur Ólafsson meðal sakborninga og hann dæmdur fyrir markaðsmisnotkun.

Ólafur var ásamt þremur stjórnendum Kaupþings dæmdur fyrir sýndarviðskipti sem héldu hlutabréfaverði í bankanum háu. Þannig hafi þeir skapað falska eftirspurn eftir hlutabréfum í bankanum.

Al-Thani málið er eitt umfangsmesta sakamál sem rekið hefur verið á Íslandi. Dómarnir sem fjórmenningarnir hlutu eru einnig þeir þyngstu sem fallið hafa í efnahagsbrotamáli. Þeir kærðu meðferð málsins íslensku dómskerfi til Mannréttindadómstólsins sem hefur áður komist að þeirri niðurstöðu að Árni Kolbeinsson hafi ekki verið óhlutlægur í málinu, vegna starfa sonar hans fyrir Kaupþing.

Kæra Ólafs snýr að hlutabréfaeign dómaranna tveggja fyrir hrun sem varð að engu við fall bankans haustið 2008. Fréttablaðið greinir frá því að í bréfi Mannréttindadómstólsins sé þremur spurningum beint til íslenska ríkisins og Ólafs þar sem óskað er eftir skýringum er snúa að málinu, hvernig meðferð þess var háttað fyrir dómstólum og hver fjárfestingarumsvif dómaranna hafi verið.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi