Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

MDE er ekki hefðbundinn dómstóll

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Hæstiréttur Íslands verður áfram æðsti dómstóll landsins burt séð frá niðurstöðu yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu, segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann fullyrðir að niðurstaðan í málinu kennt við Landsrétt hafi ekki bein réttaráhrif á Íslandi.

Segir málstað Íslands sterkan

Málflutningur fór fram í Landsréttarmálinu frammi fyrir yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu í vikunni. Sigríður Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sagði líklegt að yfirdeildin staðfesti úrskurð dómstólsins sem dæmdi ríkinu í óhag, enda hefði hann hagsmuni af því. Bjarni segist ekki hafa forsendur til að leggja mat á líklega niðurstöðu þótt hann telji íslenska ríkið hafa sterkan málstað.

„En það sem mér finnst skorta á í umræðunni á Íslandi er að menn geri sér grein fyrir því að þetta er ekki æðsti dómstóll Íslands. Það er Hæstiréttur á Íslandi, hann er bundinn að íslenskum lögum og hann hefur dæmt um þetta mál eftir íslenskum lögum þannig að það mun ekki breytast eftir því hvernig niðurstaðan fer út í Strassborg.“

Hefur ekki bein réttaráhrif á Íslandi

Sigríður gagnrýndi einnig að hluti þeirra dómara sem dæmdu í málinu á fyrra stigi sitji einnig í yfirdeildinni. Spurður hvort hann sé sammála þeirri gagnrýni svarar Bjarni: „Já, mér finnst það fyrst og fremst vera til vitnis um að þetta er ekki hefðbundinn dómstóll eins og við þekkjum það í okkar dómskerfi. Þetta er fyrirkomulag til þess að fara yfir eftirfylgni með þjóðréttarlegum skuldbindingum Mannréttindasáttmálans og eitt af því sem að fylgir þá er sérstakar reglur um skipan þessarar eftir deildar en það er líka fleira sem fylgir. Til dæmis það, að niðurstaða Mannréttindadómstólsins hefur ekki bein réttaráhrif á Íslandi.“

Yfirdeildin mun taka sér nokkra mánuði til að úrskurða í málinu en niðurstöðu er að vænta fyrir áramót.