Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

May skrifar undir útgöngu Breta

29.03.2017 - 03:52
epa05876302 A handout photo made available by 10 Downing Street on 29 March 2017 shows British Prime Minister Theresa May signing a letter of notification to the President of the European Council setting out the United Kingdom's intention to withdraw
 Mynd: EPA - 10 DOWNING STREET / HANDOUT
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, undirritaði bréf í gærkvöld sem markar upphaf útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Bréfið verður afhent Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs ESB, í dag. Þar með reynir í fyrsta sinn á fimmtugustu grein Lissabon-sáttmálans, sem kveður á um útgöngu ríkis úr Evrópusambandinu.

Tim Barrow, sendiherra Bretlands hjá Evrópusambandinu, afhendir Tusk bréfið um hádegi í dag. Að því loknu ávarpar May þingið og lýsir því yfir að ferli útgöngu Bretlands úr ESB sé hafið. Að sögn breska ríkisútvarpsins, BBC, lofar forsætisráðherrann þjóðinni að vera fulltrúi hvers einasta Breta í samningaviðræðunum. Áhersla verður lögð á samtakamátt.

Búist er við því að samningaviðræður Breta og ESB hefjist í maí eða júní. Gert er ráð fyrir að samningaviðræðum ljúki í október á næsta ári og Bretland gangi formlega úr ESB í mars 2019. Von er á frumvarpi á breska þinginu á morgun þar sem kynntar verða tillögur um yfirfærslu ESB-laga í breska löggjöf. Þá verður felld úr gildi sú regla að Evrópulög séu æðri breskum lögum.

Rúmur helmingur greiddi atkvæði með útgöngu Bretlands úr ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu í júní í fyrra. Stjórnarskipti og dómsmál hafa tafið fyrir útgöngunni, og þá eru ekki öll ríki Bretlands tilbúin að segja sig úr ESB. Meirihluti Skota greiddi atkvæði með áframhaldandi veru í ESB, og hefur skoska þingið samþykkt að fara fram á nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði. Skotar höfnuðu sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslu 2014, en Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra heimastjórnarinnar, segir forsendur nú aðrar en þá.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV