Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Matvælaskortur í Sómalíu vegna þurrka

06.05.2019 - 14:48
epa02935462 Four-month-old severely malnourished Somali baby boy Yunis Abdqadir Hussein is held by his mother Fartum Hussein Jimale at Banadir Hospital, the only public hospital in the capital Mogadishu, Somalia, 25 September 2011. The United Nations Children's Fund (UNICEF) said that Somalia has the highest mortality rate in the world for children under the age of five. The country's child mortality rate in 2010, prior to current famine, stood at 180 deaths per 1,000 live births, which is even getting worse with widespread famine and recurring drought. Six areas in southern Somalia have been declared famine zones by the United Nations and 750,000 people are at imminent risk of death while 1.5 million children need immediate assistance including 336,000 children under the age of five who are severely malnourished.  EPA/DAI KUROKAWA
Tvær milljónir sómalskra barna þurfa á meðferð að halda á þessu ári vegna vannæringar. Mynd: EPA
Matvælaskortur vegna þurrka í Sómalíu ógnar afkomu hátt í tveggja milljóna landsmanna. Norska flóttamannaráðið segir að mörg hundruð þúsund börn séu vannærð og margar milljónir eru farnar að heiman í leit að viðurværi.

Alla jafna rignir kröftuglega í Austur-Afríku frá marsmánuði og fram í maí. Það hefur ekki gerst að þessu sinni með þeim afleiðingum að uppskera eyðileggst í þurrkunum. Þeir eru taldir hinir þriðju alvarlegustu í heimshlutanum frá árinu 1981.

Sameinuðu þjóðirnar áætla að 1,7 milljónir Sómala þurfi á matvælaaðstoð að halda. Líkur eru á að hálf milljón bætist í hópinn næstu tvo mánuði. Sérfræðingar samtakanna telja að hátt í tvær milljónir barna þurfi á meðferð að halda á þessu ári vegna vannæringar.

Þurrkarnir og aðrar öfgar í veðrinu valda einnig erfiðleikum í fleiri ríkjum í Austur-Afríku. Um það bil átta af hverjum tíu íbúum þessara landa lifa af landbúnaði. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna metur ástandið svo að yfir 42 milljónir íbúa í Eþíópíu, Súdan, Suður-Súdan, Sómalíu, Kenía, Úganda og Jemen þurfi á aðstoð að halda þar sem uppskera sé að eyðileggjast vegna þurrkanna.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV