Máttu ekki senda viðskiptavini á bannlista tölvupóst

06.01.2020 - 11:13
Mynd með færslu
 Mynd: ´000 - 0´´
Símanum hf. var ekki heimilt að senda markaðsefni í tölvupósti til viðskiptavinar sem var á bannskrá Þjóðskrár Íslands, samkvæmt úrskurði Persónuverndar.

Viðskiptavinurinn hafði látið skrá hjá Þjóðskrá Íslands að ekki megi senda honum tölvupóst í markaðssetningarskyni en fékk engu að síður sendan tölvupóst með kynningu á sjónvarpsefni sem í boði er á miðlum fyrirtækisins og boð um að prófa tiltekna þjónustu á vegum þess.

Í sjónarmiðum Símans kom fram að sending tölvupóstsins hafi verið mistök þar sem viðskiptavinurinn hafi komið andmælum á framfæri við fyrirtækið sjálft. Hann hafi því ekki átt að vera í hópi þeirra viðskiptavina sem fengu tölvupóst.

Í úrskurði Persónuverndar segir að Símanum hafi borið að nafn þessa tiltekna viðskiptavinar saman við bannskrá Þjóðskrár áður en tölvupósturinn var sendur. Þar sem slíkt hafi ekki verið gert teljist vinnsla Símans á persónuupplýsingum þessa viðskiptavinar ekki hafa samrýmst 1. mgr. 21. gr. laga nr. 90/2018.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi