Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

MAST kærir bændamarkað Matís til lögreglu

19.11.2018 - 14:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Matvælastofnun hefur kært sölu og markaðssetningu á heimaslátruðu lambakjöti á bændamarkaði Matís til lögreglu. Forstjóri Matís telur engin lög hafa verið brotin. Heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra segir miður að ólöglegt kjöt hafi verið til sölu á markaðnum.

Mega ekki selja heimaslátrað 

MAST hefur óskað eftir rannsókn lögreglu á markaðssetningu á heimaslátruðu lambakjöti á bændamarkaði Matís á Hofsósi í lok september. Á vef MAST segir að samkvæmt lögum um slátrun og sláturafurðir megi einungis dreifa og selja kjöt sem hafi verið slátrað í löggiltu sláturhúsi og heilbrigðisskoðað af dýralækni á vegum Matvælastofnunar. Meint brot felist í að slátra sauðfé utan sláturhúss og selja kjötið, án þess að það hafi verið heilbrigðisskoðað í samræmi við lög.

Miður að kjötið hafi verið til sölu

Heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra tók málið til skoðunar í síðustu viku og segir í fundargerð að almennt hafi tekist vel til á bændamarkaðnum, en það sé miður að til sölu hafi verið óheilbrigðisskoðað kjöt. Farið er fram á að bændamarkaður Matís verði framvegis starfræktur í samræmi við lög og reglur. Nú standi yfir vinna á vegum Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga við að endurskoða reglur og eftirlit með kjöti „beint frá býli” en æskilegt væri að nýta reynsluna af markaðnum í þeirri vinnu. Engar kvartanir hafi borist frá neytendum eftir markaðinn.

Forstjóri Matís, Sveinn Margeirsson, segir í samtali við fréttastofu að hann telji engin lög hafa verið brotin. Kjötið á markaðnum hafi verið örverumælt, merkt og fylgt frá upphafi til enda. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV