Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Maskadagur á Ísafirði

08.02.2016 - 19:49
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Í dag er bolludagur um allt land en á Ísafirði, Bolungarvík og nágrenni er líka maskadagur. Flestir krakkar Ísafjarðar og margir fullorðnir hafa klætt sig upp í maska eða búning og í kvöld halda þau út til að syngja í verslunum sem og heimahúsum.

Gamall siður á Ísafirði

Maskadagshefðin er upprunalega rakin til hefðar þegar strákar marseruðu um bæi með söng og betli á bolludag í lok 19. aldar, segir Jóna Símonía Bjarnadóttir, forstöðukona Safnahússins á Ísafirði. Hún segir hefðina hafa lagst af á landinu að mestu, nema á Akureyri þar sem siðurinn var svo fluttur yfir á öskudag og breyddist þannig út um landið á ný. Ísfirðingar og nágrannar hafi hins vegar haldið í upprunalega siðinn og klæðast því grímubúningum í dag. „Við vitum allavega um siðinn frá því í kringum 1900 og kannski aðeins fyrr, þá tíðkaðist að börn fóru á milli húsa og rassskeltu með bolluvöndum og fengu bollur og klæddu sig svo upp.“ Hún segir að þá hafi siðurinn ekki einungis náð til barna heldur líka til fullorðinna. Jóna Símonía segir að mögulega gæti siðurinn hafa lagst niður um tíma en að uppúr 1940 hafi verið grímudansleikir á þessum degi og svo hafi börnin eignast daginn.

Áður var það leikþáttur en ekki söngur

Jóna Símonía ryfjar upp að þegar hún var krakki þá klæddu krakkar sig upp og gerðu einskonar leikþátt: „Þau klæddu sig upp og settu sig í hlutverk og siðurinn gekk út á að setja upp smá leikrit. Svo var gengið í hús og þau spurð spurninga og þurftu að geta svarað spurningum eins og: „Hver ertu?,“ „Hvert ertu að fara?“ í karakter. Margir voru mjög klárir í þessu.“ Hún segir að í minningunni hafi verið skemmtilegast að fara í húsin þar sem fólk spurði sem mest. Krakkarnir reyndu að vera óþekkjanlegir og breyttu röddunum. Svo hafi siðurinn breyst: „Þessi siður að syngja tekur svo yfir siðinn að segja frá.“ Hún segir að krökkum virðist vera orðið meira sama um hvort þau þekkist: „Ef maður spyr „Hver ertu?“ þá segja þau oft bara nafnið sitt.“

Enn gengið í heimahús

Jóna Símónía segir að það sé enn gengið í heimahús á Ísafirði þótt fleiri og fleiri börn fara í verslanir, þá fyrr um daginn. Flest börn fari þó á stjá eftir kvöldmat. Nú syngja börnin og þeir sem þekkja gömlu hefðina reyna kannski að spyrja þau aðeins út úr, eins og þau þekkja úr sinni æsku. „Það væri gaman ef fólk væri til í að endurvekja gömlu hefðina.“ Jóna Símonía segir að fólk virðist helst sakna leikþáttanna.

Nýir siðir taka við af gömlum

Jóna Símonía segir að áður fyrr hafi börn ekki safnað nammi í poka heldur fengið uppí sig karamellu eða súkkulaði að launum fyrir leikþáttinn en tekur það fram að nýir siðir taki við af gömlum. Maskahefðin tíðkast þó enn og krakkar á Ísafirði fá frí á sprengidag en ekki öskudag þar sem þau eru maskandi fram eftir kvöldi á bolludag. Í grunnskólanum á Ísafirði voru haldin þrjú maskadagsböll í dag og krakkar og kennarar komu uppábúnir til náms og kennslu og starfsmenn nokkurra vinnustaða tóku einni á það ráð.

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður