Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Martial tryggði United sigur

epa07946475 Manchester United's Anthony Martial (C) celebrates after scoring the opening goal during the UEFA Europa League group L soccer match between FK Partizan and Manchester United in Belgrade, Serbia, 24 October 2019.  EPA-EFE/SRDJAN SUKI
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Martial tryggði United sigur

24.10.2019 - 18:50
Fjölmargir leikir voru á dagskrá síðdegis í Evrópudeildinni í fótbolta. Manchester United komst á sigurbraut í Serbíu.

United hefur átt brösugu gengi að fagna að undanförnu en frammistaða liðsins í 1-1 jafntefli gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag þótti vísa til betri vegar. Liðið heimsótti Partizan frá Belgrað til Serbíu í dag í L-riðli Evrópudeildarinnar. Liðið vann þar 1-0 sigur með marki Frakkans Anthony Martial úr vítaspyrnu sem bakvörðurinn ungi Brandon Williams hafði fiskað. Partizan pressaði stíft á lið United undir lokin en tókst ekki að setja mark sitt á leikinn.

United er á toppi riðilsins með sjö stig, tveimur á undan AZ Alkmaar sem vann 6-0 sigur gegn Astana frá Kasakstan á sama tíma. Albert Guðmundsson, leikmaður AZ, og Rúnar Már Sigurjónsson, úr Astana, voru báðir fjarri góðu gamni vegna meiðsla.

Sigur United bindur enda á 12 leikja sigurlausa hrinu liðsins á útivelli í öllum keppnum. Síðasti útisigur liðsins kom gegn Paris Saint-Germain í Meistaradeild Evrópu í mars.

L-riðill

1 Manchester United 3 +2 7
2 AZ Alkmaar 3 +6 5
3 Partizan 3 0 4
4 Astana 3 -8 0

 

Félagar þeirra í íslenska landsliðinu Arnór Sigurðsson og Hörður Björgvin Magnússon voru báðir í byrjunarliði CSKA Moskvu sem tapaði 1-0 á heimavelli gegn Ferencvaros frá Ungverjalandi í H-riðli. Á sama tíma tryggði Victor Campuzano Espanyol frá Spáni 1-0 sigur gegn búlgarska liðinu Ludogorets í sama riðli.

CSKA er enn án stiga í keppninni og er í slæmum málum á botni riðils síns.

H-riðill

1 Espanyol 3 +3 7
2 Ludogorets 3 +6 6
3 Ferencvaros 3 -2 4
4 CSKA Moskva 3 -7 0

 

Romain Saiss og Raúl Jiménez voru á skotskónum er Wolverhampton Wanderers vann góðan 2-1 útisigur gegn Slovan Bratislava í Slóvakíu í K-riðli. Wolves er ásamt Braga frá Portúgal í toppsætum riðilsins eftir 2-1 sigur Braga gegn Besiktas í Istanbúl en þeir tyrknesku eru óvænt stigalausir á botni riðilsins eftir þrjá leiki.

K-riðill

1 Braga 3 +2 7
2 Wolves 3 +1 6
3 Slovan Bratislava 3 +1 4
4 Besiktas 3 -4 0