Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Markmiðið að sýna einstaklinga

Mynd: Books&Colours; Rannveig Einarsd? / Books&Colours; Rannveig Einarsd?

Markmiðið að sýna einstaklinga

23.03.2020 - 12:59

Höfundar

Fyrr á þessu ári sendi Rannveig Einarsdóttir félagssálfræðingur og ljósmyndari, sem er búsett í Berlín, frá sér einkar fallega ljósmyndabók sem ber titilinn Provisional Life. Myndirnar tók Rannveig á fjögurra ára tímabili af íbúum á flóttamannaheimili í Berlín.

„Það er svo merkilegt að þegar talað er um flóttafólk þá er yfirleitt talað um það sem einsleitan hóp og það gleymist hvað þau eru ólík innbyrðis, eiga sér ólíka menningu og trúarbrög og eru ólíkir einstaklingar,“ segir Rannveig m.a. í viðtalinu. Eitt á þetta fólk þó óyggjandi sameiginlegt og það er hugrekkið. „Þau höfðu kjark og þau höfðu þor til að leggja upp í þessa vegferð og fólk sem leggur af stað fótgangandi frá Afganistan á fyrir höndum margra mánaða ferðalag.“

Myndir Rannveigar eru afar sterkar og segja hver og ein margar sögur. „Það tók tíma að vinna trúnað fólksins, að þau treysti mér til að misnota ekki myndirnar.“ Oft þurftu samskiptin að fara fram án orða og það var stundum jafnvel gott,  „vegna þess að við horfum fyrir vikið meira á hvort annað, skynjum hvort annað miklu betur en ef við hefðum haft samskipti með orðum.“

Mikill tími fór í það að hanna bókina og fékk Rannveig hollenskan hönnuð, Sybren (SYB) KUIPER, sér til aðstoðar. Í sameiningu ákváðu þau að kaflaskipta bókinni þannig að hún skyldi hefjast á umhverfinu án fólks um leið og aðstæður manneskjunnar sem hefur skapað sér þetta ákveðna rými. Hér má skoða nokkrar myndir úr bókinni Provisional Life.

„Markmið mitt með bókinni var ekki að sýna fórnarlömb heldur einstaklinga,“. sagði Rannveig ennfremur. „Við mætum þessu fólki allt of oft með fordómum. Fordómar geta í sjálfu sér verið skiljanlegir og jafnvel mikilvægir. Það versta er ef við drögum þessa fordóma aldrei í efa og endurskoðum þá.“ Við vitum ekki hvaða mann ákveðinn einstaklingur í hópi flóttafólks hefur að geyma nema að við göngum til móts við viðkomandi sem einstakling.

Hér fyrir neðan má hlusta á lengri útgáfu af samtalinu við Rannveigu.

 

 

Mynd: Rannveig Einarsdóttir / Rannveig Einarsdóttir
Rannveig Einarsdóttir