Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Markalaust hjá United - CSKA tapaði

epa07892855 Angel Gomes of Manchester United (L) fights for the ball with Calvin Stengs of AZ Alkmaar during the UEFA Europa League group L match in The Hague, The Netherlands, 03 October 2019.  EPA-EFE/Gerrit van Keulen
 Mynd: EPA-EFE - ANP

Markalaust hjá United - CSKA tapaði

03.10.2019 - 18:50
Fjöldi leikja var á dagskrá í Evrópudeildinni í fótbolta fyrri part kvölds. Tvö ensk lið voru í eldlínunni auk tveggja íslenskra landsliðsmanna.

Manchester United gerði markalaust jafntefli gegn AZ Alkmaar er liðin mættust í Haag í kvöld. Liðið er á toppi L-riðils með fjögur stig, líkt og Partizan Belgrað.

Wolverhampton Wanderers vann 1-0 sigur er liðið mætti Besiktas í Istanbúl í K-riðli. Willy Boly skoraði þar eina mark leiksins í uppbótartíma. Wolves er í þriðja sæti riðilsins með þrjú stig, stigi á eftir Braga og Slovan Bratislava sem skildu jöfn í kvöld.

Þá voru landsliðsmennirnir Arnór Sigurðsson og Hörður Björgvin Magnússon í byrjunarliði CSKA Moskvu sem fékk Stjörnubanana Espanyol frá Spáni í heimsókn, en Espanyol sló Stjörnuna úr Garðabæ úr leik í forkeppninni í sumar. CSKA stóðst þeim spænsku ekki snúninginn frekar en Garðbæingar þar sem Espanyol vann 2-0 sigur með mörkum frá Kínverjanum Lei Wu og Victor Campuzano en Hörður Björgvin gerði sig sekan um slæm mistök í marki þess síðarnefnda. Bæði Arnór og Hörður spiluðu allan leikinn fyrir CSKA sem er án stiga á botni riðilsins.