Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Markaðnum ekki treystandi fyrir húsnæðisöryggi

05.10.2019 - 12:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Forseti ASÍ segir að málefni fjárfestingarsjóðsins Gamma staðfesti það að hinum frjálsa markaði sé ekki treystandi fyrir húsnæðisöryggi fólks. Eigið fé í eigu Gamma þurrkaðist nánast upp eftir að það var endurmetið og fjárfestar hafa tapað hundruðum milljóna. 

Eignir sjóðsins voru metnar á 4,4 milljarða króna um síðustu áramót en eigið fé hans er nú metið á 42 milljónir króna. Helsta eign sjóðsins, Upphaf fasteignafélag, er með nokkur hundruð íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu.  

„Við höfum alltaf sagt þetta. Það er ekki hægt að láta húsnæðisöryggi í hendurnar á markaðnum. Það að hleypa þessu öllu lausu verður til þess að svona fjárfestar koma inn á markaðinn sem eru ekki með það að sjónarmiði að fólk búi í öruggu og góðu húsnæði á sæmilegu verði, heldur einfaldlega ætla að mjólka eins mikið og mögulegt er. Ofmeta sjálfa sig og ofmeta aðra, öðrum til skaða. Þetta er enn ein staðfestingin á því að hinn frjálsi markaður; honum er alveg sama um húsnæðisöryggi fólks,“ sagði Drífa Snædal, forseti ASÍ, í Vikulokunum á Rás Eitt í morgun. 

Óháðir utanaðkomandi sérfræðingar hafa verið fengnir til að fara yfir málefni sjóðanna. Samkvæmt heimildum fréttastofu verða samningar fasteignafélagsins Upphafs skoðaðir sérstaklega. Upphaf á í miklum greiðsluerfiðleikum og þarf um milljarð króna til að geta klárað útistandandi verkefni.