Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Maria Ressa: Ályktun Íslands mikilvæg

13.07.2019 - 15:15
Mynd: EPA / EPA
Einn þekktasti fréttamaður Filippseyja, Maria Ressa, segir ályktun Íslands sem samþykkt var í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna á fimmtudag mikilvæga fyrir mannréttindabaráttu á Filippseyjum og annars staðar. Ressa hefur verið í fararbroddi þeirra sem berjast á heimsvísu fyrir frjálsum og óháðum fjölmiðlum og hefur fjallað ítarlega um mannréttindabrot stjórnvalda á Filippseyjum undanfarin ár. Forseti Filippseyja hæddist að Íslandi fyrir ályktunina.

„Ég hef unnið sem blaðamaður í Suð-Austur Asíu frá 1986; í meira en þrjá áratugi, og ég hef aldrei upplifað neitt þessu líkt. Ég hef verið stríðsfréttaritari og fylgst með nánast öllum stríðsátökum í heimshlutanum og þetta er verra en allt það,“ sagði Ressa í viðtali við RÚV í gær, föstudag. Hún var þá nýkomin af ráðstefnu um frelsi fjölmiðla sem breska utanríkisráðuneytið stóð fyrir í Lundúnum.

Ressa er heimsþekktur blaðamaður og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín. Hún var í hópi þeirra blaðamanna sem prýddu forsíðu Time Magazine um síðustu áramót; Time Magazine telur hana í hópi eitt hundrað áhrifamestu einstaklinga í heiminum í dag og í maí síðastliðnum fékk hún heiðursverðlaun frá Columbia háskólanum í New York. 

Ressa starfaði í mörg ár hjá CNN og síðar sem fréttastjóri hjá ABS-CBN, stærstu sjónvarpsstöð Filippseyja. Árið 2012 stofnaði hún fréttasíðuna Rappler, sem orðinn er einn virtasti og útbreiddasti vefmiðillinn á Filippseyjum. Rappler hefur fjallað ítarlega um framferði stjórnvalda í landinu undanfarin ár, þar á meðal um ásakanir á hendur lögreglu landsins og æðstu ráðamanna í því sem kallað hefur verið stríðið gegn fíkniefnum - lögreglan hefur til að mynda verið sökuð um að hafa tekið þúsundir af lífi án dóms og laga, og forseti landsins. Rodrigo Duterte, hefur opinberlega hvatt til slíkra verka. 

Ítrekað sótt að fréttamiðlum

Afleiðingin af þessum fréttaflutningi Rappler og annarra miðla á Filippseyjum hefur verið að stjórnvöld hafa ítrekað reynt að leggja stein í götu þeirra. Ressa var handtekin 2018 og aftur snemma á þessu ári vegna ásakana sem margir telja vera af pólitískum ástæðum, og í viðtali RÚV við hana kom fram að síðan í Janúar 2018 hafi yfirvöld lagt fram 11 málsóknir og rannsóknir gegn henni og Rappler - sem til að mynda þær afleiðingar að hún þarf að leggja fram tryggingar í hvert skipti sem hún ferðast út fyrir landið.  Fjölmennt lið lögmanna hefur aðstoðað hana, bæði á Filippseyjum og á alþjóðavettvangi; einn af þeim er mannréttindalögfræðingurinn heimsþekkti, Amal Clooney. 

Okkar hlutverk að veita aðhald

„Okkar hlutverk er að veita stjórnvöldum aðhald, annars vegar vegna grimmdarlegrar baráttu stjórnvalda í því sem þau kalla stríðið gegn fíkniefnum. Mannréttindasamtök hér telja að minnst 27 þúsund manns hafi fallið í þessu svokallaða stríði síðan 2016. Hinn slagurinn er um upplýsingaherferð stjórnvalda og hvernig þau gera samfélagsmiðla að vopni. „Þetta er allur pakkinn og við höfum kallað þetta ´Handbók Harðstjórans'; það sem gerðist þegar Donald Trump fór að kalla CNN og New York Times falsfréttamiðla, þá fylgdi Duterte forseti í kjölfarið viku síðar og talaði um Rappler sem falsfréttamiðil,“ segir Ressa. 

Fyrsta skrefið 

„Vopnavæðing samfélagsmiðla er fyrsta skrefið, því það ruglar almenning í ríminu og fólk veit ekki almennilega hverju skal í raun trúa. Þetta er afar lúmskt, því án staðreynda - sem þeir herja á - þá næst sannleikurinn ekki fram. Og ef sannleikurinn er ekki fyrir hendi, þá er traustið farið líka. Þannig að allir fréttamiðlar liggja undir áföllum og allar stofnanir sem ráðist er að sömuleiðis. Við slíkar aðstæður yfirgnæfir röddin sem hefur stærsta lúðurinn og hér á Filippseyjum er það Duterte forseti.“

Þakkar Íslandi 

„Margir Filippseyingar, að mér meðtaldri, þakka Íslendingum fyrir þetta frumkvæði,“ segir Ressa, aðspurð um áhrifin af ályktun Íslands sem samþykkt var í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna á fimmtudag. Í henni er farið fram á að Michelle Bachelet, mannréttindastjóri SÞ láti gera úttekt á stöðu mannréttindamála á Filippseyjum, og að stjórnvöld þar láti af ítrekuðum brotum gegn almenningi. „Það er afar mikilvægt fyrir ríki að standa með gildum og lifa samkvæmt þeim reglum sem ráða í lýðræðisríkjum - reglum sem hafa spornað gegn refsileysinu og komið í veg fyrir yfirgang og ofríki eins og við máttum reyna í seinni heimsstyrjöld,“ segir Ressa. 

Hörð viðbrögð stjórnvalda

Stjórnvöld á Filippseyjum hafa brugðist hart við ályktuninni sem samþykkt var í Mannréttindaráðinu. Forseti landsins hæddist til að mynda að Íslandi í ræðu sem hann hélt á föstudag, og utanríkisráðherra landsins sagði að ríkin sem studdu ályktunina þyrftu að taka ótilgreindum afleiðingum. Imee Marcos, öldungadeildarþingmaður á Filippseyjum og dóttir fyrrum einræðisherrans Ferdinands Marcos, lýsti því yfir í dag (laugardag) að stjórnvöld á Filippseyjum ættu að slíta stjórnmálasambandi við Ísland.