Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Margslungin og átakanleg fjölskyldusaga

Mynd: RÚV / RÚV

Margslungin og átakanleg fjölskyldusaga

03.11.2019 - 10:09

Höfundar

Bókarýnir Víðsjár segir engan byrjandabrag að finna á fyrstu skáldsögu Bergþóru Snæbjörnsdóttur. Svínshöfuð er margslungin og átakanleg bók þar sem Bergþóra stekkur fram sem fullskapaður skáldsagnahöfundur.

Maríanna Clara Lútersdóttir skrifar:

Svínshöfuð er fyrsta skáldsaga Bergþóru Snæbjörnsdóttur en hún vakti töluverða athygli fyrir ljóðabók sína Flórída sem kom út árið 2017 og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Áður höfðu komið út eftir hana ljóðabókin Daloon dagar árið 2011 og textasafnið Dagar undrabarnsins eru á enda árið 2013.

Þótt bæði formið og stíllinn séu gjörólík kallar Svínshöfuð fram ákveðin hugrenningatengsl við skáldsögu Kristínu Eiríksdóttur, Hvítfeld, að því leytinu til að báðar fjalla sögurnar um fjölskylduharm sem erfist til næstu kynslóða og það hvað eyðileggingarafl niðurbældrar sorgar og óhamingju getur verið ofsafengið og eyðileggjandi.

Þetta er fjölskyldusaga sem gerist á nokkrum tímaskeiðum og í tveimur löndum. Aðalpersónan, Svínshöfuð, er í upphafi bókar fatlað yngsta barn kotbænda á lítilli eyju í Breiðafirði uppúr 1930. Hann er nefndur Gunnar eftir elsta syninum sem drukknaði ári áður en Svínshöfuð fæddist en tengir aldrei við nafnið. Eftir erfiða æsku markaða fátækt og eymd, þar sem á honum er níðst vegna fötlunnar sinnar, farast faðir hans og eldri bræður í hörmulegu sjóslysi sem Svínshöfuð verður vitni að ásamt móður sinni og systrum. Í kjölfar slyssins flytja þau úr eyjunni og til Stykkishólms þar sem fátæktin og baslið halda áfram. Harðneskjan er mikil og harmurinn stór og engin tæki til staðar til að vinna úr honum. Móðirin elskar Svínshöfuð en hann er afskiptur af samfélaginu og alltaf utangarðs. Systurnar flytja að heiman og síðar deyr móðirin og Svínshöfuð stendur einn eftir. Á níunda áratugnum, þegar hann er tæplega sextugur, ákveður hann að „panta“ sér eiginkonu frá Kína. Til landsins koma svo ung kona sem tekur upp nafnið María og sonur hennar, sem er endurnefndur Gunnar. Þessi fyrsti hluti sögunnar er sagður í nokkurs konar endurliti Svínshöfuðs á níræðisaldri eftir að María er látin og Gunnar, yfirleitt kallaður „strákurinn“ liggur á sjúkrahúsi, í dái eftir skelfilega atburði sem ekki eru tíundaðir í þessum hluta sögunnar.

Annar hlutinn bókarinnar segir frá Helenu, ungri tveggja barna móður sem er barnabarn systur Svínshöfuðs. Hennar saga er sömuleiðis dapurleg, móðirin yfirgaf hana og skildi eftir sig mikið tómarúm sem Helena hefur reynt að fylla með ýmsum leiðum. Hún er nú gift vel stæðum manni og býr í afskaplega glæsilegu húsi en skelfilegar hugsanir leita sífellt á hana og undiraldan verður æ þyngri.

Í síðasta hluta sögunnar fáum við loks innsýn í líf „stráksins“ Gunnars, og, þó í minna mæli sé, móður hans. Saga þeirra er ekki auðveld lesning en um leið mögnuð sýn inn í aðstæður og líf sem kastljósi er sjaldan varpað á þrátt fyrir að innflytjendur séu stór hluti þjóðarinnar. Þetta er þó alls ekki einhver „almenn“ umfjöllun um innflytjendur, síður en svo. Hér er sögð afgerandi og sérstök saga einstaklings – rétt eins og saga Svínshöfuðs sjálfs. Það er í þessum lokahluta bókarinnar sem hinar sögurnar koma saman og eru að lokum leiddar til lykta.

Á yfirborðinu mætti segja að hér væri sögð saga fjölskyldu þar sem eiginkonan er „pöntuð“ frá Kína, og giftist sér miklu eldri manni. Hjónaband sem nýtur almennt lítillar virðingar í samfélaginu og er oft fyrirlitið. Hér væri auðvelt að skapa einföld illmenni og fórnarlömb en sú er ekki raunin. Til þess hefur Bergþóra of djúpan skilning á mannlegu eðli og of mikla samúð með óhamingju persóna sinna. Í viðtali við Víðsjá talar hún um að okkur hætti til að flokka fólk sem annað hvort gerendur eða þolendur en hins vegar leynist oftar en ekki bæði gerandi og þolandi innra með okkur öllum.

Gamall og ljótur kall pantar sér unga konu frá Kína sem hann lætur svo stjana við sig, en breytan hér er að áður en að því augnabliki kemur hefur lesandinn fylgt manninum í tæp sextíu ár. Það er auðvelt að hata gamla skapstygga karlinn en það er erfitt að hafa ekki samúð með fatlaða barninu sem hann einu sinni var. Að sama skapi er ómögulegt annað en að hafa samúð með brúðinni frá Kína, sem aldrei nær að verða sá hluti af samfélaginu á Stykkishólmi sem hún þráir en um leið er saga hennar flóknari en svo að hægt sé að stimpla hana eingöngu sem „fórnarlamb“. Þó að auðvitað beri allir ábyrgð á eigin gjörðum verða orsök og afleiðing svo skýr þegar hlutirnir eru settir í stærra samhengi og manneskjur eru að einhverju leyti niðurstaða erfða og umhverfis eins og verður skýrt í frásögninni: „Svínshöfuð og systkini hans erfðu því þá byrði sem ofsafengið tilfinningalíf móður þeirra var, samhliða þungbærri og lamandi þögn föðurfjölskyldunnar. Tilfinningar systkinanna brutust fram sem ofbeldi í garð hinna, það var eina tilfinningaútrásin sem þótti ekki skammarleg.“ (bls. 18) Harðræði, áföll og bæling sársauka sem enginn horfist í augu við verða grunnurinn sem fjölskyldan reisir líf sitt á. Saga „stráksins“ og örlög hans verða svo aftur eins og niðurstaða allrar undangenginnar óhamingju – og ljóst er að eitthvað mun undan láta.

Bergþóra dregur upp ólíkar myndir, þjáning manna er misjöfn og afleiðingar hennar enn misjafnari. Vopnabúr fólks eru einnig ólík sem og varnarkerfi þeirra. Skaðinn sem er unninn með því þegar barn er yfirgefið getur verið sambærilegur við þann sem hlýst af ofbeldi. Þögn og öskur eru eitur úr sömu flösku og geta eyðilagt jafn mikið. Bergþóru tekst það afrek að láta okkur fyllast reiði gagnvart persónunum og gjörðum þeirra án þess þó að við glötum samúðinni með þeim. Það er mögulegt að fordæma gjörðir fólks án þess að fordæma manneskjurnar sjálfar. Persónurnar eru svo skelfilega mannlegar og breyskar að stundum er hreinlega erfitt að líta ekki undan.

Þetta er líkamleg bók og raunsæisleg, jafnvel hrá á köflum. Hún hefst með óþægindum, svita og þvagi og henni lýkur á loðnum karlmannshöndum í vatni, löng hárin bærast eins og vængir. Mannslíkaminn er í senn fyrirferðarmikill og viðkvæmur, sár myndast, vessar renna, matur fer inn, úrgangur fer niður og stundum upp. Búkurinn allur engist um af kvölum og óþægindum, stöku sinnum af unaði, á meðan vanmáttugar persónurnar berjast við að marka sér svæði, finna sér samastað í samfélagi sem ýtir út á jaðarinn öllum sem ekki falla að norminu. Bergþóra nær listavel að sýna hvernig sammannleg þrá manneskjunnar eftir hlýju, ást og viðurkenningu snýst upp í andhverfu sína þegar hún mætir sífelldum skellum.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Innra með leynast bæði gerandi og þolandi

Bókmenntir

Ljóð sem sveiflast milli fegurðar og viðbjóðs

Bókmenntir

„Hún er afkvæmi míns vanskapaða huga“

Bókmenntir

„Persónuleg í sjötta veldi“