Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Margrét Lára hætt í fótbolta

Mynd með færslu
Margrét Lára hefur skorað 77 mörk í íslenska landsliðsbúningnum. Hér fagnar hún einu þeirra á EM 2013 í Svíþjóð. Mynd:

Margrét Lára hætt í fótbolta

26.11.2019 - 14:15
Knattspyrnukonan Margrét Lára Viðarsdóttir er hætt í fótbolta. Margrét varð Íslandsmeistari með Val í haust og varð í sumar önnur konan til að skora 200 mörk í efstu deild á Íslandi, samtals urðu mörkin 207. Hún er jafnframt markahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi.

Markadrottningin Margrét Lára er fædd í júlí 1986, uppalin hjá ÍBV í Vestmannaeyjum og spilaði fyrsta meistaraflokksleikinn fimmtán ára gömul. Hún spilaði með ÍBV til 2004 þegar hún færði sig yfir til Vals áður en hún hélt út í atvinnumennsku. Lengst af spilaði hún á atvinnumannaferlinum með sænska liðinu Kristianstad 2009-2011 og 2012-2015 áður en hún sneri aftur heim í Val. Hún spilaði alls 101 leik fyrir Kristianstad og skoraði í þeim 48 mörk. Árið 2007 skoraði hún 38 mörk í sextán leikjum fyrir Val, blómstraði jafnframt með landsliðinu og var kjörin Íþróttamaður ársins. Alls urðu leikirnir í meistaraflokki hér heima 180 og mörkin 255.

„Ákvörðunin að leggja skóna á hilluna var langt frá því að vera mér auðveld. Ferillinn hefur verið draumi líkastur og ef einhver hefði sagt mér að ég hefði átt eftir að vinna alla þessa titla með liðum mínum og sem einstaklingur þá hefði ég aldrei trúað því. Titlarnir eru eitt en allt það frábæra fólk sem ég hef kynnst í fótboltanum er það sem stendur upp úr. Ég er óendanlega þakklát fyrir allt, en kveð með trega og mjög sátt,“ segir Margrét Lára á Facebook-síðu Vals. 

Margrét Lára á að baki 124 landsleiki og 79 mörk. Hún kom inn á í fyrsta skipti í landsleik í júní 2003, þá sautján ára gömul, gegn Ungverjum í undankeppni EM 2005. Hún skoraði fjórum mínútum síðar og Ísland vann leikinn 4-1. Hún var í hópnum sem tryggði Ísland í fyrsta skipti á stórmót og spilaði með liðinu á EM í Finnlandi 2009. Hún var raunar markahæst í undankeppninni með tólf mörk. Margrét Lára spilaði einnig með liðinu á EM í Svíþjóð 2013 en meiddist fyrir mótið 2017 og var ekki með.  

Margrét Lára tók við fyrirliðabandinu í landsliðinu af Katrínu Jónsdóttur þegar hún hætti 2013. Hún var þó ekki fyrirliði í langan tíma í það skiptið því hún fór í barneignarfrí í október sama ár. Sara Björk Gunnarsdóttir tók þá við en Margrét var aftur gerð að fyrirliða þegar hún sneri til baka.  

Margrét Lára varð fjórum sinnum Íslandsmeistari á ferlinum, einu sinni bikarmeistari, fimm sinnum markahæst í deildinni hér heima, einu sinni í sænsku deildinni og þrisvar í Meistaradeild Evrópu.  

Hér að neðan má sjá myndband sem sett var saman í tilefni af hundraðasta landsleik Margrétar árið 2015.

Mynd:  / RÚV