Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Margrét Indriðadóttir látin

19.05.2016 - 11:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Margrét Indriðadóttir fyrrverandi fréttastjóri fréttastofu Útvarps er látin. Margrét starfaði á fréttastofunni í 36 ár og var fyrst kvenna á Norðurlöndum til að gegna stöðu fréttastjóra á ríkisfjölmiðli. Margrét var ráðin á fréttastofu Útvarps árið 1949 og starfaði þar til ársins 1986. Hún var fréttastjóri Útvarps í 18 ár.

Margrét fæddist á Akureyri árið 1923, dóttir Laufeyjar Jóhannsdóttur og Indriða Helgasonar. Hún varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1943 og hóf að því loknu störf hjá Morgublaðinu. Þar var hún fengin til að skrifa á sérstaka kvennasíðu. Margrét ákvað að afla sér menntunar í blaðamennsku, sem þá var fátítt meðal Íslendinga, og hélt til Bandaríkjanna þar sem hún lærði við Háskólann í Minnesota.

Að loknu námi starfaði Margrét hjá Morgunblaðinu og á Tímanum um skamma hríð en réð sig til Ríkisútvarpsins árið 1949 og starfaði á fréttastofu Útvarps í 36 ár. Hún tók við starfi fréttastjóra árið 1968. Í tilefni þess var tekið viðtal við hana í Tímanum.

Árið 1999 ræddi Eva María Jónsdóttir við Margréti um líf hennar og störf. 

Mynd: RÚV / RÚV

Margréti hlotnuðust margvíslegar viðurkenningar fyrir brautryðjendastarf í blaða- og fréttamennsku, síðast  fyrir tæpum tveimur árum, þegar viðamikð málþing var haldið henni til heiðurs. Eiginmaður Margrétar var Thor Viljhálmsson rithöfundur. Á áttatíu ára afmæli Ríkisútvarpsins rifjaði hann upp rómantískar minningar sínar um Margréti. 

 

Mynd: RÚV / RÚV

Fjallað verður um Margréti og störf hennar í Speglinum í kvöld.

ragnhildurth's picture
Ragnhildur Thorlacius
Fréttastofa RÚV