Margir misskilja veruleika trans barna

Mynd: Stöð 2 / Stöð 2

Margir misskilja veruleika trans barna

18.02.2020 - 10:02

Höfundar

Málefni trans barna hafa verið mikið í deiglunni síðustu daga. Þau Sigrún Ósk Kristjánsdóttir og Sveinn Benedikt Rögnvaldsson, dagskrárgerðarfólk á Stöð 2, hafa ekki farið varhluta af þeirri fáfræði sem oft virðist ríkja varðandi málefni trans barna. Þau hafa varið síðustu tveimur árum í að fylgja trans börnum og fjölskyldum þeirra eftir vegna framleiðslu á nýjum þáttum um trans börn.

Trans börn er heimildarþáttaröð í þremur hlutum sem sýnd er á Stöð 2. „Mér fannst fólk oft hafa undarlegar hugmyndir um þetta. Fólk virtist hafa einhverjar hugmyndir um trans einstaklinga og yfirfærði þær á börnin,“ segir Sveinn Benedikt Rögnvaldsson framleiðandi þáttanna. „Ég vildi bara sýna hversu eðlilegt þetta er.“

Athygli vekur að börnin sem koma fram í þáttunum ásamt fjölskyldum var fylgt eftir í tvö ár. Sigrún Ósk, sem hefur umjón með þáttunum, segir að þau hafi snemma ákveðið að fylgja þeim eftir í langan tíma enda breytist margt á tveimur árum, sérstaklega hjá börnum, en þau voru á aldrinum sjö til sautján ára þegar að ferlið hófst. 

Þau Sigrún Ósk og Sveinn Benedikt benda jafnframt á að margir misskilji veruleika trans barna. Það séu til dæmis ekki gerðar neinar aðgerðir á ólögráða börnum, þetta snúist frekar um að þau fái að klæða sig eins og þau vilja, klippa eða safna hári. Þá rugli margir saman kynhneigð og kynvitund sem Sigrún Ósk segir að séu tvö ólík hólf.

„Eina inngripið hjá þessum hópi eru þessir hormónablokkerar svokallaðir sem þau eru sett á þegar þau eru að detta inn í kynþroskann, sem er þá eins og pásutakki þannig að þau fá aukið rými til að átta sig betur og hugsa sig um,” segir Sigrún Ósk. 

Þau segja að viðbrögðin við þáttunum hafi almennt verið mjög góð og fólk hafi talað um að þættirnir hafi fengið það til að átta sig á hversu lítið þau vissu um þennan málaflokk. 

Grimmd í kommentakerfum. 

Sveinn Benedikt segir að hann hafi ekki séð neitt neikvætt frá þeim sem hafa séð þáttinn. Það séu frekar þau sem ekki hafa séð þættina sem tjá sig með neikvæðum hætti. Hann birti einmitt færslu á Facebook-síðu sinni með skjáskotum af athugasemdum í kommentakerfum þar sem verið er að fjalla um þættina. 

„Mér dauðbrá hvað fólk er tilbúið að segja undir nafni. Ég held að þetta sé oft mikil fáfræði og einhver hræðsla. Fólk heldur að það sé verið að fara með krakka í aðgerðir.”

Þau segja það hafa reynst snúið að fá fólk til að treysta þeim fyrir sínum sögum og mikil ábyrgð hafi hvílt á þeim að koma þessu vel frá sér. 

Sveinn Benedikt segir að flestar fjölskyldurnar sem þau fylgdu eftir hafi brugðist þannig við að þau vissu ekki hvað var í gangi þegar að barnið sagðist vera af öðru kyni og reyndu að snúa við kynvitund barnsins. 

„Þau hafa svo litlar upplýsingar, það er stór ástæða fyrir því að þau ákváðu að vera með okkur. Þau hefðu viljað sjá svona þátt á sínum tíma.”