Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Margir minnast Ragnars Bjarnasonar

Mynd með færslu
 Mynd: Karl Orgeltríó

Margir minnast Ragnars Bjarnasonar

26.02.2020 - 13:57

Höfundar

Fjölmargir Íslendingar hafa minnst eins dáðasta söngvara þjóðarinnar, Ragnars Bjarnasonar, eftir að fréttir bárust af því að hann hefði látist í gær. Hann var 85 ára gamall.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir Ragnars verða sárt saknað, bæði úr íslensku tónlistarlífi og íslensku samfélagi, þó að tónlistin og röddin muni lifa. „Fyrir það erum við þakklát. Við spjölluðum alltaf saman þegar við rákumst hvort á annað á förnum vegi. Sérstaklega er mér minnisstætt þegar við hittumst fyrir mörgum árum í bókabúðinni Úlfarsfelli sem þá var við Hagamel. Einn sona minna var með í för, þá á leikskólaaldri, og lét rækilega í sér heyra, og Ragnar tók þá utan um mig, einstaklega hlýlega, og gaf mér góð ráð um barnauppeldi og pólitík (sem stundum eiga sitthvað sameiginlegt). Blessuð sé minning Ragga Bjarna.“

Ragnar kom oft fram á sýningum um Ellý í Borgarleikhúsinu. Leikkonan Katrín Halldóra Sigurðardóttir, sem fór með hlutverk Ellýjar, minnist Ragnars líka. „Elsku hjartans vinur Raggi. Takk fyrir allt, sönginn, sögurnar og hláturinn og góða ferð áfram,“ segir Katrín á Facebook.

Páll Óskar Hjálmtýsson segir Ragnar hafa verið frumkvöðul og fyrirmynd. „Takk fyrir samveruna, leiðsögnina, húmorinn, sönglögin og faðmlögin,“ segir Palli á Facebook.

Og söng- og leikkonan Salka Sól Eyfeld rifjar upp þegar hún kynntist Ragga mjög óvænt þar sem þau voru bæði bókuð í sömu veislu og beðin um að taka lag saman og hún nýfarin að hefja sinn söngferil. „Við höfðum aldrei hist og ég fór úti bíl til hans og við renndum í lagið. Upphófst ótrúleg vinátta sem entist því miður of stutt en við náðum þó nokkrum árum saman, ótal giggum, gerðum lag saman og fórum á mörg trúnó,“ segir Salka.

Tengdar fréttir

Tónlist

Ragnar Bjarnason látinn