Margir í sjálfskipaðri sóttkví

26.03.2020 - 19:45
Mynd: Rúv.is/Viddi / Rúv.is/Viddi
Almenningur sér að mestu leyti um það sjálfur að tryggja að reglum samkomubanns sé fylgt, segja verslunareigendur sem eru að fóta sig við nýjar og framandi aðstæður. Stærri verslanir þurfa hins vegar að grípa til víðtækra ráðstafana.

Fréttastofa kom víða við í dag og allur gangur er á því hvernig verslanir bregðast við hertu samkomubanni sem tók gildi aðfaranótt þriðjudags. Fer það allt eftir stærð og eðli þjónustunnar. Sums staðar er talið inn í verslanir, til að mynda í Elko þar sem viðskiptavinir stóðu í röð og biðu þess að komast inn. Það var einnig biðröð í að komast inn í BYKO en þar er er búið að hólfa niður verslunina.

Hjá minni verslunum og veitingastöðum eru viðfangsefnin annars konar. Sumar verslanir hafa lokað eða skert afgreiðslutíma, ásókn er í bílalúgur og heimsendingarþjónusta verður sífellt vinsælli verslunarmáti. Þá segja margir verslunareigendur að almenningur sjái einfaldlega sjálfur til þess að reglum samkomubannsins sé fylgt.

Magnús Geir Eyjólfsson