Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Margar jákvæðar breytingar“ boðaðar á LÍN

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna segir að lækkun fjárveitinga til sjóðsins eigi sér eðlilegar skýringar. Það sé jákvætt að ráðherra boði breytingar á starfsemi LÍN. 

Fjárveitingar til LÍN hafa á undanförnum árum verið rúmlega sex milljarðar umfram þörf. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir lægri fjárveitingu og að LÍN verði að stærri hluta fjármagnað með uppsöfnuðu handbæru fé sjóðsins.  

Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri LÍN, segir að lækkun á fjármögnun til sjóðsins eigi sér eðlilegar skýringar, en eins og fréttastofa greindi frá í vikunni hefur umsóknum um námslán hjá LÍN fækkað um helming á síðustu tíu árum. 

„Sjóðurinn fær fjárveitingar í samræmi við áætlaðan fjölda námsmanna á námslánum á hverjum tíma. Námsmönnum hefur fækkað miðað við það sem sjóðurinn gerði ráð fyrir. Þar af leiðandi skilum við bara því fjármagni inn eða fáum lægri fjárlög sem því nemur,“ segir Hrafnhildur. 

Búist er við því að Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, leggi til stórtækar breytingar á lánasjóðnum á þessu þingi. Nýju frumvarpi er ætlað að styðja við þarfir námsmanna og barnafjölskyldna með sveigjanlegri lánum og styrkjum. Hrafnhildur segir að horft sé jákvæðum augum á það innan sjóðsins.  

„Námsmenn hafa lengi beðið um að lögum um LÍN sé breytt. Þessi útfærsla felur í sér að styrkurinn er sýnilegri, hann kemur strax til framkvæmda þegar námsmenn ljúka náminu, að því tilskyldu að þeir ljúki því á réttum tíma. Skuldastaða námsmanna verður því lægri þegar þeir hefja endurgreiðslur á námslánunum. Það eru breytingar á endurgreiðsluskilmálunum og námsmenn fá barnastyrki strax, og svo framvegis. Svo þetta eru margar jákvæðar breytingar,“ segir Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri LÍN.