Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Mannréttindadómstóll dæmdi Jóni Ásgeiri í hag

18.05.2017 - 08:09
Mynd með færslu
Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi aðaleigandi og forstjóri Baugs. Mynd: RÚV
Mannréttindadómstóll Evrópu komst að því í morgun að íslenska ríkið hefði brotið á Jóni Ásgeiri Jóhannessyni kaupsýslumanni og Tryggva Jónssyni. Jón Ásgeir þarf ekki að greiða 62 milljóna króna sekt sem Hæstiréttur dæmdi hann til að greiða. Honum voru dæmdar tæpar tvær milljónir króna í bætur.

Þeir Jón Ásgeir og Tryggvi voru ásamt Kristínu Jóhannesdóttur dæmdir í skilorðsbundið fangelsi fyrir rúmum fjórum árum fyrir skattalagabrot í rekstri Baugs og fjárfestingafélagsins Gaums. Þeir kærðu ákvörðunina til Mannréttindadómstóls Evrópu, töldu að brotið hefði verið gegn reglum um bann við endurtekinni málsmeðferð. Þeir hefðu áður verið sektaðir vegna sömu brota. Ákærum er varða fjárfestingafélagið Gaum var vísað frá mannréttindadómstólnum. 

Jón Ásgeir var í hæstarétti dæmdur í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi í febrúar 2013 og gert að greiða ríkissjóði 62 milljónir króna fyrir meiriháttar brot á skattalögum. Tryggvi var dæmdur í átján mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 32 milljónir króna í sekt. Í dómnum sem birtur var í morgun segir að að hvorugur þeirra hafi greitt sektina. Báðir fóru fram á að sektargreiðslurnar yrðu felldar niður og mannréttindadómstóllinn féllst á það. Íslenska ríkið hafi brotið gegn fjórðu grein mannréttindasáttmála Evrópu. Þar er fjallað um réttinn til að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis. 

Mannréttindadómstóllinn féllst að mestu leyti á málflutning Jóns Ásgeirs og Tryggva. Þeir hefðu verið dæmdir í seinna skiptið á grundvelli sömu sönnunargagna og í fyrra skiptið. 

 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV