Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mannræninginn sem klónaði hundinn sinn

Mynd: skjáskot / skjáskot

Mannræninginn sem klónaði hundinn sinn

24.11.2019 - 14:36

Höfundar

Hún var valin fegursta kona Wyoming, varð ástfangin af ungum mormóna í Utah, rændi honum í Englandi og klónaði hundinn sinn í Suður-Kóreu. Saga Joyce McKinney er lyginni líkust.

Föstudaginn 25. október fæddist fyrrverandi forsetahjónum Íslands, þeim Ólafi Ragnari Grímssyni og Dorrit Moussaieff hvolpur. Hann hlaut nafnið Samson og í genum hans má finna blöndu þýskra og íslenskra fjárhunda. Hann var þó ekki getin í ástarleik þessara tegunda, heldur í tilraunastofu í Texas, úr frumum fyrrum forsetahundsins Sáms. 

Ættfræði Samsons er þannig ekki aðeins fólgin í Sámi og forfeðrum hans heldur einnig í manngerðu ferlinu sem gerði fæðingu hans mögulega. 

Fyrsta klónið, árið 1885 var ígulker. Árið 1996 fæddist fyrsta klónaða spendýrið úr frumum fullorðins dýrs, kindin Dollý. Árið 2005 fæddist svo fyrsti klónaði hvolpurinn - Afganinn Snuppy.

Þremur árum síðar klónuðu sömu vísindamenn, við háskólann í Seoul, Suður-Kóreu, í fyrsta skipti hund fyrir viðskiptavin, fremur en í þágu vísindanna. Hundinn Booger, sem hafði verið í eigu Bernann McKinney.

„Þetta er kraftaverk,“ hrópaði McKinney upp yfir sig, þegar hún sá hvolpana fimm, bókstaflegar eftirmyndir Booger. Það hafa þau Dorrit og Ólafur eflaust hugsað líka þegar þau sáu fyrstu myndirnar af Samson en ólíkt þeim, fékk McKinney þó aldrei að taka hvolpana með heim. Blaðamenn könnuðust nefnilega við McKenny. Hún hafði verið á forsíðum allra blaða í Bretlandi sumarið 1977.

Fegurðardrottningin og mormóninn

Joyce Mckinney, eins og Bernann heitir réttu nafni, fæddist árið 1949 í Norður-Karolínu. Henni gekk framan af vel í skóla en hafði þó háleit markmið utan akademíunnar, og var krýnd Ungfrú Wyoming árið 1974. Hún sóttist eftir því að verða Ungfrú Bandaríkin en hafði ekki erindi sem erfiði og flutti því til Utah í framhaldsnám. Hún hafði búið með mormónafjölskyldu þegar hún var í grunnnámi í Tennessee og kunni því vel, sá fyrir sér að stofna til sambands með góðum mormóna og eiga með honum góða mormónafjölskyldu. Og það var í Utah sem hún kynntist Kirk Andersson.

Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot
Kirk Andersson var 19 ára þegar hann kynntist Joyce McKinney.

Anderson var bara 19 ára, sex árum yngri en McKinney, hávaxinn og feitlaginn, dökkhærður og feiminn. Engu að síður, varð McKinney ástfangin við fyrstu sýn. Í hennar frásögn - sem full ástæða er til að draga í efa svo það sé tekið fram - voru þau farin að ræða framtíðina strax á þriðja stefnumóti. Nefna börnin sín. Þau stunduðu kynlíf, samkvæmt McKinney, en slíkt er með öllu bannað fyrir hjónaband innan mormónakirkjunnar. Anderson fylltist samviskubiti og játaði verknaðinn fyrir öldungum kirkjunnar sem ákváðu að senda hann á brott, í trúboð.

Og þar hefði sagan getað endað. Þar hefði sagan átt að enda. En McKinney var ekki á þeim buxunum. Hún sneri baki við trúnni og elti Anderson, fyrst til Kaliforníu og svo til Oregon þar sem hann tók upp annað nafn til að reyna að fela sig frá henni. Loks var hann sendur úr landi, til Englands, en McKinney lét það heldur ekki stöðva sig. Hún safnaði fjármagni í gegnum vændi og erótísk fyrirsætustörf og réð loks einkaspæjarastofu til að finna Anderson. Loks flaug hún til Englands, ásamt meintum samverkamanni sínum Keith May. Með í farteskinu höfðu þau skotvopn - hugsanlega gerviskotvopn - klóróform, nuddolíu með kanilbragði og loðin handjárn.

Sautjánda eptember 1977 lokkaði May svo Anderson inn í bíl. Hann svæfði hann með klóróformi og keyrði svo áleiðis í lítið, afskekkt sveitakot þar sem McKinney beið.

Mynd með færslu
 Mynd: Daily Mirror
Forsíða Daily Mirror frá 24. nóvember 1977

McKinney telur sig hafa búið fanga sínum notalegt umhverfi. Hún hafði eldað fyrir hann uppáhaldsmatinn hans - djúpsteikt kjúkling, stappað kartöflur og bakað súkkulaði köku. Hún hafði jafnvel búið um með rúmfötum úr bláu silki, blá eins og augun í honum, með skammstöfuninni hans saumaðri í.

„Það var aðeins ein leið til að láta Kirk snúa baki við mormónatrú,“ sagði McKinney síðar. „Og það var að njóta ásta með honum.“

McKinney virðist þannig ekki hafa nokkurn skilning á hugtakinu samþykki og enn minni skilning á hugtakinu ást. Nokkuð hefur verið deilt um nákvæmlega hvað gerðist í kotinu en allir eru sammála um Anderson hafi verið bundinn og hlekkjaður og að Mckinney hafi ítrekað haft við hann samræði með það fyrir augum að verða ólétt. Mckinney heldur því fram að Anderson hafi verið þátttakandi í einhvers konar BDSM leik. Anderson segir að sér hafi verið nauðgað. 

Eftir þrjá daga í prísundinni slepptu þau McKinney og May Anderson sem hringdi samstundis á lögregluna. May og McKinney voru handtekin og haldið í varðhaldi í þrjá mánuði. 

„Hefði rennt sér á skíðum niður Everest“

Fyrir dómi sagðist McKinney hafa elskað Kirk svo mikið að hún hefði rennt sér á skíðum niður Everest, allsber með nelliku í nefninu. Þá sagði hún ómögulegt fyrir konu að nauðga karlmanni, það væri eins og að reyna að troða sykurpúða í stöðumæli.

Þessi staðhæfing er auðvitað alröng. Karlmenn fá ekki bara standpínu þegar þeir eru til í tuskið og standpína er ekki það sama og samþykki. Á þessum tíma gerðu lög í Englandi hins vegar ekki ráð fyrir að kona gæti brotið kynferðislega gegn karlmanni. Raunar er það svo enn í dag að ekki er hægt að sækja konur í Bretlandi til saka fyrir nauðgun, aðeins fyrir ýmsar útfærslur á kynferðisbrotum.

May og McKinney voru engu að síður ákærð fyrir mannrán og líkamsárás en tókst að flýja land á fölsuðum skilríkjum eftir að þau losnuðu úr varðhaldi. Þrátt fyrir að McKinney væri ekki lengur á landinu var hún dæmd í árs fangelsi, in absentia, en yfirvöld reyndu aldrei að fá hana framselda svo hún sat aldrei fangavistina. Lögregla hafði aftur afskipti af henni árið 1984 þegar hún virtist sitja um Anderson á vinnustað hans, en engin kæra var gefin út.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Joyce var handtekin í Utah 1984, grunuð um að sitja fyrir Anderson að nýju. Lengra náði málið ekki.

Gull í gúrkutíð

Eftir að McKinney skaut aftur upp kollinum með klónaða hvolpa í fanginu, gerði leikstjórinn Errol Morris heimildarmynd um hana, myndina Tabloid. McKinney tók þátt í gerð myndarinnar en myndin einblíndi þó ekki aðeins á hana, mannránið og nauðgunina. Þess í stað skoðaði hann umfjöllunina.

Það var ekki mikið í fréttum hjá bresku slúðurpressunni árið 1977. Þeir tóku McKinney og kynlífsórum hennar því fagnandi. Fyrirsagnirnar skrifuðu sig sjálfar og þegar McKinney tókst að flýja landið seldi hún sögu sína til The Daily Express fyrir 40 þúsund pund, í beinhörðum peningum. Sama dag og viðtalið birtist, með mynd af McKinney í rúllukragapeysu og nelliku milli tannanna var flennistór nektarmynd af henni á forsíðu Daily Mirror með fyrirsögninni „The Real McKinney“ – Hin sanna McKinney. Hún vermdi forsíður blaðsins í marga daga á eftir.

Mynd með færslu
 Mynd: Daily Mirror
Forsíður Daily Express og Daily Mirror drógu upp afar ólíkar myndir af McKinney, bókstaflega.

Í Tabloid leyfir Morris þátttakendum að segja söguna - fordæmir ekki né fagnar - en McKinney var engu að síður afar óánægð með hana. Hún mótmælti henni í ýmsum kvikmyndahúsum og kærði að lokum Morris, staðhæfði að hann hefði brotist inn til hennar, stolið gögnum og hótað lífi hundsins hennar. Kærunni var vísað frá dómi. 

Þó McKinney hafi sloppið við fangelsisdóminn og getað klónað hundinn sinn hefur líf hennar síður en svo verið sigurganga. Hún virðist hafa selt húsið sitt til að klóna Booger og svo virðist hún ekki einu sinni hafa fengið að eiga hvolpana eftir að upp komst um fortíð hennar.

Hún var um skeið á vergangi í Los Angeles og í júlí á þessu ári var hún kærð fyrir að hafa ekið á 91 árs mann og svo stungið af. Maðurinn lét lífið í bílslysinu og vakti málið mikla reiði, ekki síst þar sem hann var upprunalega frá Úkraínu og hafði lifað af helförina í seinna stríði. McKinney er enn í varðhaldi, en er haldið á deild fyrir sakborninga með geðræn vandamál. 

Kannski mun hún, eftir allt, þurfa að sitja í fangelsi.

 

Tengdar fréttir

Tækni og vísindi

Dorrit klónar Sám aftur: Krabbameinsgenið burt

Innlent

Eftirmynd Sáms lítur dagsins ljós