Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Manngerður hellir frá því fyrir landnám

Mynd: RÚV / RÚV

Manngerður hellir frá því fyrir landnám

16.04.2015 - 19:50

Höfundar

Hellir undir Eyjafjöllum var manngerður að hluta fyrir landnám það er um árið 800. Þetta sýnir rannsókn vestur-íslensks fornleifafræðings meðal annars á gjóskulögum við hellinn.

Á milli Seljalandsfoss og bæjarins Seljalands er Kverk. Þar uppi í hlíðinni er Kverkarhellir, gott skjól fyrir veðri og vindum.

Þórður Tómasson á Skógum er manna fróðastur um gamla tíma undir Eyjafjöllum. Kverkarhellir hýsti kindur fyrr á tíð en hann var líka þingstaður Vestur-Eyfellinga til 1895 þar sem sýslumaður tók manntal og þess háttar. „Það sjást hér í hellismunnanum ummerki eftir þil sem hafa verið hér fyrir hellinum, kannski tengt þingstaðnum, ég veit það ekki vel. Og innsti hluti af hellinum virðist gerður af mönnum og þar innst í hellingum eru mjög greinileg krossmörk höggvin í hellisbergið.“

Þetta krossmark innst í hellinum er þeirrar náttúru að þótt það sé á þurru bergi, þá er það alltaf rakt og grætur þegar komið er við það. Þetta hafa Eyfellingar sagt mann fram af manni en það hefur svo sem ekki verið vísindalega rannsakað. Meira þarf til að sýna fram á mannvist hér þar til fyrir landnám.

En hvernig á þá að aldursgreina hve fólk hefur búið lengi í þessum helli? Jú, það voru safnhaugar hérna fyrir utan hellinn sem komu Kristjáni Ahronson, fornleifafræðikennara við Bangor háskóla í Wales, á sporið því úr þeim var hægt að taka sýni til aldursgreiningar. 

Kristján kynnti niðurstöður rannsóknar sinnar og fleiri í Háskóla Íslands í dag en frá þeim er greint í bók hans Into the Ocean. Hann er Vestur-Íslendingur og skilur íslensku nokkuð vel. Gjóskulög ofan á og undir frákastinu úr hellinum segja til um aldurinn. „Við erum við það að bera kennsl á umtalsvert magn af efni sem gæti verið afgangsefni frá byggingarstarfi og virðist vera frá því um 800,“ segir hann. 

Í Seljalandshelli eru glæsileg krossmörk. Kristján og aðrir vísindamenn hafa borið þau saman við krossmörk annars staðar. „Þótt Kverkarhellir ásamt Seljalandshelli séu einstakir eru þeir í hópi hella á Suðurlandi, manngerðra hella, sem eru einkenndir með krossmörkum,“ segir Kristján.

„Það er eitthvað mjög einstakt við krossana í hellunum á Suðurlandi en það eru samt augljós rök fyrir því að einhver tengsl séu við Vestur-Hálöndin á Írlandi og Skotland, Írland og Bretland,“ segir Kristján. 

Ekki vill Kristján slá neinu föstu um að þetta hafi verið papar, það er kristnir menn frá Bretlandseyjum. En vissulega hefur Seljalandshellir verið ákjósanlegur bústaður á öldum áður þótt hann hafi látið mjög á sjá og brýnt sé að verja hann og rannsaka betur.

„Þetta er eitt af þeim verkefnum sem bíður í íslenskri þjóðminjavörslu,“ segir Þórður. 

Tengdar fréttir

Suðurland

Kverkarhellir sagður frá því um árið 800