Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Manneskja með stórt hjarta sem gerði heiminn betri“

02.01.2020 - 11:16
Mynd með færslu
 Mynd: Katrín Jakobsdóttir - Facebook
Fjölmargir hafa minnst Guðrúnar Ögmundsdóttur sem lést á líknardeild Landspítalans að morgni gamlársdags eftir stutta og snarpa baráttu við krabbamein. „Ég kynntist henni bæði á vettvangi stjórnmálanna og stjórnarráðsins og alltaf tók hún mér með hlýju og gleði af því að hún var manneskja með stórt hjarta sem sannanlega gerði heiminn betri,“ skrifar Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Guðrún var fyrst kjör­in til setu í borg­ar­stjórn fyr­ir Kvenna­list­ann árið 1992 og fyr­ir Reykja­vík­urlist­ann 1994-1998. Hún var kjör­in í borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur fyr­ir Sam­fylk­ing­una árið 2018. Guðrún var kjör­in á þing fyr­ir Sam­fylk­ing­una í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi árið 1999 og sat á þingi til árs­ins 2007.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, segir á Facebook-síðu sinni að það hafi verið ótrúlega sárt að kveðja Guðrúnu sem hefði rutt brautina á ótalmörgum sviðum og skilið eftir sig djúp spor í samfélaginu. „ Það urðu allir ríkari af því að kynnast Gunnu Ö. Engum hef ég kynnst sem hafði jafn mikið og djúpt innsæi í samskipti fólks og hópa.“

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segist minnast Guðrúnar með hlýhug og þakklæti. „Ef allir væru jafn góðir og skemmtilegir og þessi yndislega kona var, væri heimurinn sannarlega betri.“

Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi ráðherra, segist hreinlega aldrei hafa kynnst skemmtilegri konu en Guðrúnu. „Fólk varð held ég bara almennt betra með því að umgangast hana - alla vega náði hún alltaf að koma auga á það góða í fólki og leggja rækt við það. Og það ætla ég að reyna að hafa í huga hér eftir þegar við kveðjum þessa stórbrotnu konu.“

Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að Guðrún hafi verið góð við alla, líka þá sem töldust til pólitískra andstæðinga. „Sérstaklega þykir mér vænt um stund þegar við hittumst í Sundhöllinni í vor þar sem hún gaf mér ýmis góð ráð og réði mér heilt. Eitthvað sem ég mun eiga í gegnum lífið.“

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir á Facebook-síðu sinni að hún minnist Guðrúnar fyrir einstaka nærveru, réttsýni, húmor og næmi. „Örlát á stuðning og hvatningu, faðmlög og skilaboð löng og stutt. Svo ótrúlega dýrmæt manneskja.“

Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata, segir að Guðrún hafi verið ein af þessum einstöku mannverum, mannvinum: „sem lét manni alltaf verða hlýtt í hjartanu þegar maður hitti hana og á sama tíma fyllast baráttumóð til handa öðrum.“

Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar, segir að Guðrún hafi kunnað að tala við fólk af virðingu og um fólk af fólk af virðingu. „Það mættu sem flestir taka hana sér til fyrirmyndar í þeim efnum. Þín verður sárt saknað, kæra samstarfskona og granni.“

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður samtakanna '78, segir að það séu margir sem eigi Guðrúnu svo margt að þakka. „Stórkostleg kona, fyrirmynd og einn alöflugasti bandamaður hinsegin fólks á Íslandi.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV