Mannanafnanefnd úrelt og skerði frelsi einstaklinga

30.11.2019 - 11:44
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Mannanafnanefnd verður að líkindum lögð niður ef áform dómsmálaráðherra um lagabreytingu fram að ganga. Ráðherra segir núverandi fyrirkomulag vera úrelt og skerða frelsi einstaklinga. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra birti í samráðsgátt stjórnvalda áform um frumvarp til laga um mannanöfn. þar áformar hún að rýmka og afnema þær takmarkanir sem felast í núgildandi löggjöf.

Áslaug segir lögin og þar með mannanafnanefnd hamli frelsi einstaklinga. „Ég held að hún sé úrelt eins og lögin eru um hana í dag og ég held það sé mikilvægt að stíga það skref að breyta þessum lögum.“

Kynntar eru tvær leiðir til að breyta þessu fyrirkomulagi. Annars vegar að leggja fram ný heildarlög þar sem reglur um skráningu eiginnafna verði rýmkaðar til muna, heimild veitt til töku ættarnafna og að mannanafnanefnd yrði lögð niður. Hins vegar að breyta gildandi lögum mikið, reglur verði afnumdar og takmarkanir rýmkaðar til muna. Mannanafnanefnd verði lögð niður og þjóðskrá íslands taki í stað ákvörðun um heimild til skráningar nýrra nafna. 

Áslaug kveðst vera bjartsýn að ná þessum breytingum í gegn um þingið. „Það mun aðeins koma í ljós hvaða leið ég fer á næsta ári þegar ég legg fram frumvarpið en ég er mjög bjartsýn um að ná einhverjum breytingum á þessum lögum í gegn og ég held að það sé mjög mikilvægt og hef heyrt mikinn stuðning þess efnis. Ekki bara á þinginu heldur út í samfélaginu og frá fólki sem hefur lent í kröggum út af þessari nefnd.“

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi