Mané eða Salah tæplega til Barcelona í sumar

epa07944388 Mohamed Salah (L) of Liverpool celebrates with teammate in Sadio Mane after scoring his team's fourth goal during the UEFA Champions League Group E match between Genk and Liverpool FC in Genk, Belgium, 23 October 2019.  EPA-EFE/STEPHANIE LECOCQ
 Mynd: EPA

Mané eða Salah tæplega til Barcelona í sumar

26.02.2020 - 09:18
Það verður að teljast ólíklegt að tveir helstu framlínumenn Liverpool, þeir Sadio Mané og Mohamed Salah verði seldir frá liðinu til Barcelona á Spáni. Barcelona skuldbatt sig nefnilega árið 2018 til að greiða 100 milljónir evra ofan á samþykkt kaupverð í næstu leikmannaviðskiptum við Liverpool.

Fjallað er um málið í enska dagblaðinu Mirror en þar kemur fram að þegar Barcelona keypti brasilíska sóknartengiliðinn Philippe Coutinho frá Liverpool í janúar 2018 hafi Liverpool gert frekar gott samkomulag. Kaupverðið á Coutinho nam nefnilega 142 milljónum punda. Sú upphæð nýttist Liverpool í að kaupa hollenska miðvörðinn Virgil van Dijk á 75 milljónir punda og brasilíska markvörðinn Alisson fyrir 67 milljónir punda.

Að margra mati voru Van Dijk og Alisson síðustu púslin hjá Jürgen Klopp til að koma saman meistaraliði. Með þá innanborðs hefur Liverpool þegar unnið Meistaradeild Evrópu og þá eru líkurnar á því að Liverpool vinni enska meistaratitilinn í fyrsta sinn í 30 ár orðnar yfirgnæfandi.

Stjarnfræðilegar upphæðir

En þegar Barcelona keypti Coutinho af Liverpool gerðu forráðamenn Liverpool jafnframt samkomulag við Börsunga að því er kemur fram í umfjöllun Mirror. Samkomulagið hljóðaði upp á það að Barcelona þurfi að greiða Liverpool 100 milljónir evra eða því sem nemur í pundum 89 milljónir ofan á kaupverð næstu þrjár leiktíðirnar ætli Barcelona sér að sækja fleiri leikmenn úr röðum Liverpool. Þetta kemur til vegna óánægju Liverpool-manna með það hve auðvelt það hefur verið fyrir Börsunga í gegnum tíðina að krækja í lykilmenn Liverpool án þess að greiða neitt of mikið fyrir þá að þeirra mati. Má þar nefna Javier Mascherano og Luis Suárez.

Leikmenn á borð við Mané og Salah eru metnir á um 135 milljónir punda. Miðað við áður gefnar forsendar þyrfti Barcelona því að greiða Liverpool í kringum 225 milljónir punda ætli liðið sér að fá annan þeirra til sín í sumar. Það gera um 37,5 milljarða íslenskra króna. Reynist upplýsingar Mirror réttar þurfa Liverpool-menn ekki að óttast það að missa leikmenn sína til Barcelona í sumar. Hvað Real Madríd eða önnur stórlið varðar er hins vegar allt annað mál.