Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Man ekki eftir öðru eins vatni í Kringlunni

24.10.2019 - 19:43
Mynd: RÚV - Sturla Holm Skúlason / RÚV
Vatn flæddi um hluta Kringlunnar nú síðdegis. Loka þurfti ýmsum verslunum og kaffihúsum tímabundið eða draga úr þjónustu.

Vatnslekinn byrjaði um fjögurleytið af ókunnum ástæðum, brunaviðvörunarbjöllur fóru í gang og eldvarnarteppi seig niður og lokaði göngunum. Fjöldi fólks var í Kringlunni og tók á sig krók til að komast leiðar sinnar. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sturla Holm Skúlason - RÚV

„Þetta eru sprinklerar sem í raun dæla vatni hér á eldvarnartjald til þess bara að tefja eld og halda því köldu nægilega lengi,“ segir Guðjón Eiríksson húsvörður í Kringlunni.

Þannig að það fór að leka en enginn eldur?

„Enginn eldur.Þetta var mjög mikið vatn. Það verður mikil vinna að hreinsa þetta allt upp. Það hefur flætt ofan í stigana sko og hérna ofan í veitingastaðinn fyrir neðan. Og svo kemst vatn einhvers staðar á milli hæða líka. Við eigum eftir að sjá til.“

Veitingastaðnum fyrir neðan rúllustigana í syðri enda Kringlunnar var lokað og eins að minnsta kosti einni herrafataverslun. Guðjón, sem hefur unnið lengi í Kringlunni, man ekki til þess að þetta hafi gerst áður. Slökkviliðið aðstoðaði starfsmenn Kringlunnar við að soga vatnið í burtu. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sturla Holm Skúlason - RÚV
Guðjón Eiríksson.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sturla Holm Skúlason - RÚV
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV