Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Maltflaska á flakki um Vestmannaeyjar

11.12.2019 - 16:38
Malt flaska sem datt af húsi í Vestmannaeyjum í óveðri.
 Mynd: Sigurþór Hjörleifsson
Maltflaska sem löngum hefur prýtt Umboðs- og heildverslun Karls Kristmannssonar í Vestmannaeyjum fór á flakk í óveðrinu í gær.

Flaskan hefur verið á sínum stað í 34 ár án þess að haggast. Þegar Sigurþór Hjörleifsson, starfsmaður umboðssölunnar, mætti til vinnu í morgun var Maltflöskuna hins vegar hvergi að finna. 

„Hún var sett upp 1985 þegar heildsalan flutti í húsnæðið, hún var svo gulltryggð þegar húsið var gert upp og nýjar settingar festingar settar á hana - en hún hefur svo bara ákveðið að yfirgefa samkvæmið í nótt.“

Sigurþór gerði fréttastofu viðvart um hvarf flöskunnar. Þegar hann hugðist svo mynda maltflöskulaust húsið að beiðni fréttastofunnar gekk hann fram á botnstykki hennar.

„Við vorum búin að fínkemba allt svæðið í kring og svo er ég að tala við fréttamann RÚV og hún bað mig að fara út að taka myndir og þá rek ég augun í botnstykkið og finn svo restina ofan í einhverri dæld þarna.“

Maltflaskan hafði þá ferðast um 200 metra og farið yfir heilan sumarbústað á leið sinni. Við ferðalagið laskaðist flaskan og háls hennar brotnaði. Sigurþór segir að með smá vinnu megi laga flöskuna en hann er ekki viss um að það verði gert. Hann vonast þó til þess að flaskan verði sett upp aftur með einhverju móti. 

„Þetta er merki hússins og ákveðið kennileiti í Vestmannaeyjum. Þetta hefur alltaf verið þarna og það muna allir eftir þessari flösku. Þetta er bara einn af hlutunum sem eiga að vera,“ segir Sigurþór. 

Verði flaskan ekki löguð komi eitthvað annað í staðinn. „Hún hefur tilfinningalegt gildi hjá eigendunum og hefur fylgt þeim alla tíð.“ 

Malt flaska sem datt af húsi í Vestmannaeyjum í óveðri.
Malt flaska sem datt af húsi í Vestmannaeyjum í óveðri.
solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV