Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Málsóknir í undirbúningi vegna skíðasvæðisins Ischgl

epa08293578 (FILE) - Tourists enjoy a sunny winter day in front of a restaurant at a ski resort in St. Anton am Arlberg, Austria, 12 January 2012 (reissued 14 March 2020). According to reports, the Austrian government has put popular touristic areas, Heiligenblut am Grossglockner, Paznautal, including Ischgl, and St. Anton under quarantine amid the ongoing Coronavirus crisis.  EPA-EFE/STR AUSTRIA OUT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Að minnsta kosti tvær málsóknir eru í undirbúningi gegn yfirvöldum í Tíról og skíðasvæðinu Ischgl vegna kórónuveirufaraldursins. Saksóknaraembættið í Innsbruck hefur falið lögreglu að rannsaka hvort því hafi verið haldið leyndu að starfsmaður á vinsælum bar hafi verið smitaður af kórónuveirunni.

Mál skíðasvæðisins Ischgl hefur vakið heimsathygli að undanförnu en rekja má hundruð sýkinga á Norðurlöndunum og Þýskalandi til Ischgl. Bæði danskir og þýskir fjölmiðlar hafa fjallað ítarlega um það hvernig sýktir ferðamenn frá svæðinu komu heim til sín og smituðu síðan út frá sér.

Ísland varaði við Ischgl 5. mars

Ráðamenn á skíðasvæðinu hafa verið gagnrýndir fyrir að hafa brugðist of seint við og er þá ekki síst horft til viðvarana íslenskra yfirvalda. Sóttvarnarlæknir varaði við ferðum til Ischgl strax 5. mars og setti svæðið á lista yfir há-áhættusvæði.  Var öllum sem komu þaðan gert að fara í tveggja vikna sóttkví. 

Forsvarsmenn skíðasvæðisins sögðu fyrst að það gæti ekki staðist að Íslendingar hefðu veikst þar heldur hlytu þeir að hafa smitast á leiðinni heim. Jafnvel af ferðamanni frá Norður-Ítalíu sem var í sömu flugvél og þeir. Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, hefur sagt að Austurríkismenn hafi tekið fálega í viðvaranirnar frá Íslandi.

Sagðir hafa vitað af víðtæku smiti

Í ítarlegri umfjöllun CNN í gær var haft eftir yfirmanni heilbrigðismála í Baden-Würtemberg að vandamálið þeirra væri ekki Íran heldur Ischgl.  Breska blaðið Telagraph sagði í umfjöllun sinni í gær að textaskilaboð virtust sýna að ráðamenn í Tíról hafi vitað um víðtækt kórónuveirusmit í Ischgl þann 9. mars en viljað að það yrði þaggað niður.  Skíðasvæðinu var síðan ekki lokað fyrr en fjórum dögum seinna.

 

 

Þýska fréttastofan ZDF upplýsti síðan að starfsmaður á vinsælum bar hefði sennilega greinst með kórónuveiruna í lok febrúar og það hefði aldrei verið tilkynnt til yfirvalda.

Neytendasamtök undirbúa hópmálsókn

Þessar upplýsingar hafa nú leitt til þess að sakamálarannsókn er hafin hjá saksóknaraembættinu í Innsbruck á því hvort smiti hafi vísvitandi verið leynt.  Í austurrískum fjölmiðlum í gærkvöld og í morgun kemur fram að tvær málsóknir séu í undirbúningi. Annars vegar á vegum neytendasamtakanna VSV og hins vegar lögmannsstofu í Vín sem hefur þegar sent kæru til saksóknaraembættisins fyrir hönd skjólstæðings síns vegna vanrækslu yfirvalda

Neytendasamtökin VSV hvetja þá ferðamenn sem voru á svæðinu eftir 5. mars um að hafa samband.  Verði niðurstaða rannsóknar saksóknarans í Innsbruck sú að ráðamenn í Tíról og Ischgl hafi gerst sekir um vanrækslu standi til að sækja bætur.  „Þegar við höfum safnað saman nægum upplýsingum til að höfða mál þá munum við hafa samband,“ segir á vef samtakanna.

Í Austurríki hefur verið kallað eftir því að einhverjir verði látnir sæta ábyrgð. Yfirvöld Tíról hafa tilkynnt að óháð rannsókn muni fara fram þegar faraldurinn sé yfirstaðinn og búið að ná tökum á ástandinu.