Málmklæddur mygluskáli með svefnplássi

04.01.2019 - 18:56
Mynd með færslu
Ólafur Wallevik, forstöðumaður Rannsóknastofu byggingariðnaðarins í mygluskálanum í Keldnaholti  Mynd:
Reistur hefur verið mygluskáli við Keldnaholt í Reykjavík þar sem áhrif myglu á byggingarefni verða rannsökuð. Svefnpláss er í skálanum fyrir þá sem vilja finna áhrif myglu á eigin skinni. Áhrif húsamyglu á heilsu fólks eru mjög einstaklingsbundin og einungis örfá prósent verða alvarlega veik vegna hennar.

Mismundandi sýni ræktuð

Mygluskáli Rannsóknarmiðstöðvar byggingariðnaðarins, RB, við Nýsköpunarmiðstöð Íslands var vígður í dag. Þetta er fyrsti opinberi mygluskáli landsins, en hann verður notaður í nokkur ár til þess að rannsaka áhrif myglu á byggingarefni sem notað er á Íslandi. 

„Þetta er skáli sem er alveg málmklæddur að innan og verður hólfaður meira. Þar munum við setja mismunandi sýni inn úr sýktum byggingum og við höfum nóg af þeim í kring um okkur,” segir Ólafur H. Wallevik, forstöðumaður RB og prófessor í byggingaverkfræði við Háskóla Íslands. 

Húsamygla algeng hérlendis

Kristmann Magnússon, húsasmíðameistari og byggingatæknifræðingur hjá RB, hefur skoðað yfir fjögur þúsund hús með tilliti til myglu og sveppa, sem hann segir mjög algenga hérlendis. 

„Og er í rauninni ekki ný af nálinni. Ég held að við höfum bara aukið þekkingu okkar til þess að geta greint vandamálið,” segir Kristmann. 

Fáir sem veikjast alvarlega

Ítrekaðar fréttir af mygluðum húsum hafa kynt undir umræðum árlega um áhrif myglu á heilsu fólks. Ólafur segir þau einstaklingsbundin, en einungis nokkur prósent veikjast alvarlega í mygluðu húsnæði. 

„Svo er önnur 10 til 15 prósent sem verða fyrir verulegum áhrifum, en það á alltaf eftir að sanna hvort það var mygla eða annar þáttur. En við getum sagt að stór hluti almennings verður ekki var við neitt. Og þess vegna bjóðum við upp á rúm í mygluskálanum.”

Hægt að gista í myglunni
Í þriðja og mest sýkta hólfi mygluskálans er búið að koma fyrir plastklæddu rúmi fyrir einn. Þangað getur fólk komið og gist í allt að viku til þess að athuga hvaða áhrif myglan hefur á það.

Næstu daga munu vísindamenn færa mygluna inn í skálann, en hægt verður að skoða hann eftir nokkra mánuði þegar búið er að rækta mygluna við kjöraðstæður. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi