Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Málið litið alvarlegum augum innan KKÍ

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Málið litið alvarlegum augum innan KKÍ

22.05.2019 - 19:00
Þjálfari 11 ára stúlknaliðs ÍR, Brynjar Karl Sigurðsson, er hættur með liðið. ÍR varð Íslandsmeistari í minnibolta stúlkna á Akureyri um helgina en liðið neitaði að taka við verðlaunum sínum í mótmælaskyni þar sem stúlkurnar segja samkeppnina ekki næga og vilja fá að spila við stráka. Formaður Körfuknattleikssambands Íslands segir að margir hafi haft samband við KKÍ undanfarin ár með áhyggjur af stúlknaliði ÍR og þeirri vegferð sem liðið sé á.

Forsaga málsins er sú að eftir sigur ÍR í úrslitaleik á Íslandsmóti ellefu ára stúlkna á Akureyri um helgina efndu liðsmenn til mótmæla. Eftir verðlaunaafhendingu var tónlistin í íþróttahúsinu lækkuð og leikmaður ÍR las upp yfirlýsingu. Í yfirlýsingunni kom fram að ástæða þess að stúlkurnar vildu ekki taka við verðlaununum væri sú að þær hefðu ekki fengið að spila við stráka í vetur.

Þær tóku því af sér medalíurnar og skildu þær eftir á gólfinu, ásamt bikarnum. Stúlknalið ÍR, undir stjórn þjálfarans Brynjars Karls Sigurðssonar, hefur áður mótmælt því að fá ekki að keppa við stráka. Í gær funduðu forsvarsmenn körfuknattleiksdeildar ÍR ásamt foreldrum með Brynjari Karli og öðrum í þjálfarateyminu og var það sameiginleg ákvörðun ÍR og Brynjars að hann myndi stíga til hliðar sem þjálfari liðsins.

KKÍ fordæmir athæfið

„Við fordæmdum strax frá upphafi þetta athæfi sem átti sér stað. En jafnframt erum við hugsa um börnin sem þarna koma og við vildum gefa körfuboltadeild ÍR tækifæri til að fara yfir þetta sín megin. Þau hafa gert það núna. En við erum klárlega að fara vel yfir málin og númer eitt, tvö og þrjú er að við lítum þetta mjög alvarlegum augum,“ segir Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands um málið.

„Við erum búin að komast að þeirri niðurstöðu, sameiginlega með foreldrunum og þjálfarateyminu, að þjálfarinn stígi til hliðar. Við reynum síðan bara að halda utan þennan flokk og þessa krakka eins og best við getum,“ segir Guðmundur Óli Björgvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar ÍR.

Brynjar gert margt gott en ef til vill öfgafengið

Foreldrar stúlknanna eru margir hverjir mjög reiðir eftir atburðarásina og hafa einhverjir tekið stúlkur sínar úr liðinu. Hlynur Bæringsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði í körfubolta, á dóttur í liðinu.

„Ég er bara aðeins að melta þetta eins og flestir. Þetta er búið að vera svolítið mikið, fyrir stelpur á þessum aldri er þetta mikil umfjöllun og þær eru ekki vanar því. Ég veit að það eru margir ósáttir við þetta og ég skil það,“ segir Hlynur og bætir við:

„Ég er ekkert alltaf sáttur við þessar aðferðir sem körfuboltahreyfingin talar oft um, maður er ekkert alltaf sammála öllu. En það verður að muna að það hefur mjög mikið gerst sem hefur verið mjög gott og það er margt til í því sem hann Brynjar Karl hefur ætlað að breyta. Stundum er það kannski öfgafengið, og ég hef nú sagt það við hann, en hann hefur líka gríðarlega mikið til síns máls þegar kemur að þjálfun og aðstöðu ungra stúlkna. Þó að kannski sumt megi betur fara en það er margt sem hann hefur bætt í þeirra umhverfi, finnst mér.“ segir Hlynur.

Margar kvartanir borist til KKÍ

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, segir að margir hafi haft samband við KKÍ vegna flokksins og útilokar ekki að ákveðið ofbeldi hafi átt sér stað.

„Það hafa mjög margir haft samband við okkur undanfarin ár, meðan þessi flokkur er að spila, með þessar áhyggjur sínar. Það er alveg rétt, um má um margt kannski segja að það eigi sér stað að hluta einhvers konar ofbeldi þarna en ég er enginn sérfræðingur sem getur dæmt um það samt,“ segir Hannes.

Guðmundur Óli Björgvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar ÍR, hefur áhyggjur af því að erfitt verði að halda utan um stúlknahópinn sem um ræðir.

„Það er ómögulegt að segja, en ég tel líklegt að það geti gerst,“ segir Guðmundur Óli.

Fréttina má sjá í spilaranum að ofan.