Málflutningi að ljúka í réttarhöldum gegn Weinstein

11.02.2020 - 20:34
CORRECTS FROM SUSPENDED TO INDEFINITE LEAVE - FILE - In this Jan. 6, 2016 file photo, producer Harvey Weinstein participates in the "War and Peace" panel at the A&E 2016 Winter TCA in Pasadena, Calif. Weinstein is on indefinite leave from
 Mynd: AP
Vonast er til að málflutningi ljúki í réttarhöldunum yfir bandaríska kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein síðar í þessari viku með lokaorðum verjenda hans og saksóknara. Weinstein hefur ekkert farið í vitnastúkuna í réttarhöldunum, sem hófust 22. janúar. 

Yfir áttatíu konur hafa sakað Weinstein um kynferðisbrot og varð mál hans kveikjan að Metoo-hreyfingunni. 

Sex konur báru vitni gegn Weinstein í réttarhöldunum. Hann neitar sök. Ásakanirnar eru um brot sem Weinstein á að hafa framið fyrir að minnsta kosti sex árum og það elsta er frá því fyrir 30 árum. 

Í réttarhöldunum hefur verið tekist á um samþykki og valdníðslu frammi fyrir kviðdóminum sem sjö karlmenn skipa og fimm konur.

Í vitnaleiðslunum greindu tvær af konunum frá því að þær hefðu sofið hjá Weinstein að minnsta kosti einu sinni af fúsum og frjálsum vilja eftir að hann á að hafa brotið gegn þeim. Önnur þeirra sagði jafnframt að hún hefði átt í sambandi við hann í nokkur ár; sambandi sem hún lýsti sem niðurlægjandi og flóknu.
 
Verjendur Weinstein halda því fram að sambönd hans við konurnar hafi verið með vilja beggja og að konurnar hafi með sambandi við hann viljað koma sér betur á framfæri. 

 

Weinstein gæti átt yfir höfði sér ævilangt fangelsi verði hann fundinn sekur um alvarlegustu brotin.  

 

Til þess að dæma Weinstein sekan verður kviðdómurinn að telja sekt hans hafna yfir allan vafa. Niðurstaða kviðdómsins verður einnig að vera samróma. Nái kviðdómurinn ekki að komast að samróma niðurstöðu gæti farið svo að dómarinn ómerki réttarhöldin. 

 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi