Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mál Samherja til skoðunar hjá Arion banka

19.11.2019 - 07:02
Brynjólfur Bjarnason
Brynjólfur Bjarnason Mynd: Arion Banki
Stjórnir Íslandsbanka og Arion banka eru með mál Samherja, sem snúa að meintum mútugreiðslum og spillingu innan Samherja í Namibíu, til skoðunar. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Í samtali við blaðið segir stjórnarformaður Arion banka, Brynjólfur Bjarnason, að stjórnin hafi beðið um ítarlega athugun á þessum málum en að öðru leyti ætli stjórnin ekki að tjá sig um mál einstakra viðskiptavina bankans. Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka, segir stjórnina funda í dag og mál Samherja verði væntanlega rædd á fundinum.

Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans, segir hins vegar að bankinn geti ekki tjáð sig um málefni sem snúi að einstaka viðskiptavinum bankans. Bankinn hafi lögum samkvæmt reglubundið eftirlit með viðskiptavinum sínum.

Norski ríkisbankinn DNB hefur skattahluta Samherjamálsins til skoðunar. Bankinn hætti viðskiptum við Samherja í fyrra vegna hættu á peningaþvætti. 

Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja, segir eitt skip sem sé hluti af erlendri starfsemi fyrirtækisins vera fjármagnað í gegnum íslenskan banka. Samherji muni veita bönkum upplýsingar um viðskipti sín og fjármálagerninga verði óskað eftir því.