Mál landeigenda fær flýtimeðferð

12.08.2019 - 12:56
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Hrafn Arngrímsson - RÚV
Fyrir helgi féllst héraðsdómur á að dómsmál landeigenda í Drangavík á Ströndum fengi flýtimeðferð. Málið verður tekið fyrir síðar í vikunni.

Landeigendurnir höfðuðu mál gegn Vesturverki og Árneshreppi. Þeir krefjast þess að framkvæmdaleyfi Vesturverks fyrir framkvæmdum á Ófeigsfjarðarheiði vegna Hvalárvirkjunar verði fellt úr gildi, sem og deiliskipulag hreppsins. Eigendurnir, sem eiga 70,5 prósent óskipts lands Drangavíkur á Ströndum, óskuðu eftir flýtimeðferð. Það var samþykkt og dómara við héraðsdóm Reykjavíkur hefur verið úthlutað málinu. 

Árneshreppur veitti Vesturverki leyfi til að leggja 25 kílómetra vegi á Ófeigsfjarðarheiði í júní. Vesturverk fær þar á meðal leyfi til að leggja veg að Eyvindarfjarðarvatni sem er í landi Drangavíkur samkvæmt þinglýstum landamerkjabréfum. Landeigendur kærðu framkvæmdirnar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar og krefjast þess að framkvæmdirnar séu stöðvaðar. 

Nefndin féllst ekki á að stöðva framkvæmdir á meðan fjallað væri um málið og í tilkynningu frá landeigendum segir að Vesturverk virðist ekki ætla að bíða með framkvæmdir á meðan nefndin kemst að niðurstöðu. Þess vegna fóru landeigendur Drangavíkur á Ströndum fram á flýtimeðferð fyrir dómstólum. Dómsmálið verður þingfest síðar í þessari viku. 

 

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi