Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Makrílkröfur á ríkið þingfestar 27. júní

19.06.2019 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fyrstu dómsmál í kjölfar makríldóms Hæstaréttar í desember verða þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku. Skaðabótakröfurnar skipta milljörðum. 

Reglugerðin andstæð lögunum

Hæstiréttur dæmdi Ísfélagi Vestmannaeyja og útgerð Hugins í vil 6. desember í fyrra og dæmdi að ríkið væri skaðabótaskylt því útgerðunum tveimur var úthlutað minni aflaheimildum í makríl árin 2011 til 14 en skylt var samkvæmt lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Úthlutunin var byggð á reglugerðum Jóns Bjarnasonar þáverandi sjávarútvegsráðherra sem ekki var í samræmi við lögin. Mál annarra úgerða sem svipað var ástatt fyrir voru líka komnar fyrir dómstóla. 

Verið að ræða breytingar á lögunum

Úthlutað var samkvæmt þessum reglugerðum árin 2011 til 18. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um breytingar á lögunum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Það á að taka tillit til dóms Hæstaréttar. Í því er meðal annars gert ráð fyrir 4000 tonna potti fyrir smábátaveiðar. Þriðja umræða um frumvarpið fór fram á þingfundi Alþingis fyrir hádegi í morgun. 

Tjón Ísfélagsins fjórir milljarðar

Mál Ísfélagsins og Hugins gegn ríkinu verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudaginn í næstu viku og varðar það skaðabótakröfur vegna áranna 2011 til 18. Í tilfelli Ísfélagsins nema kröfurnar tæpum fjórum milljörðum króna. Ísfélagið mun hafa verið stærst í makrílveiðum. 

Margar stefnur fyrir 16. júní vegna fyrningar

Um miðjan júní rann út frestur útgerða til að birta stefnu vegna ársins 2015 því fyrningarreglan nemur fjórum árum. Því hafa síðustu vikur borist margar stefnur til ríkislögmanns. Ekki hefur verið tekið saman hvað þær eru margar en talið er að þær séu færri en tíu. 

Vinnslustöðin í Eyjum og Eskja á Eskifirði hafa líka birt stefnur. Mál þessara útgerða verður þingfest í september. Tjón Vinnslustöðvarinnar árin 2015 til 18 er talið nema 750 milljónum króna. 

Ekki er vitað hve háar kröfur útgerðanna eru í heild en þær skipta að minnsta kosti milljörðum.