Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Maíspokar menga meira en plastpokar

10.05.2015 - 19:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Maíspokar, sem hægt er að kaupa sem innkaupapoka, menga þegar upp er staðið fimmfalt meira en venjulegir plastpokar. Þetta segir yfirverkfræðingur Sorpu. Hann bendir á betri leiðir til að draga úr umhverfisáhrifum.

Maíspokinn kostar 10 krónum meira en venjulegir plastpokar og þá kaupir fólk í góðri trú og telur sig eflaust vera að taka grænt skref með því að velja þá. Talsvert hefur verið fjallað um mengandi umhverfisáhrif plastpoka upp á síðkastið. 

Maíspokar brotna niður mun hraðar en plast

Bjarni Hjarðar er yfirverkfræðingur Sorpu „Við hjá Sorpu höfum fylgst með svokölluðu sótspori það er að segja hversu mörg grömm hver poki af hinum ýmsu tegundum gefur frá sér af koltvísýringi út í andrúmsloftið. Maíssterkjupokinn hefur u.þ.b. fimm sinnum stærra fótspor heldur en dæmilegður þunnur plastpoki. Og þetta er þá það sem skiptir okkur hvað mestu máli,“ segir Bjarni. 

Helsti kostur maíspokanna er að ef fólk missir þá úr höndunum, þeir fjúka frá því og lenda úti í náttúrunni, brotna þeir mun hraðar niður en plast. Hins vegar eru ókostirnir þó nokkrir og vega þungt í umhverfislegu tilliti s.s. þegar um er að ræða loftslagsbreytingar af manna völdum. 

70 milljónum plastpoka hent á ári

Íslendingar henda um það bil 70 milljón plastpokum á hverju ári. Langstærstur hluti þeirra er urðaður, en niðurbrot plastpoka tekur mörg hundruð ár. Bjarni segir að plastpokinn gefi ekki frá sér gróðurhúsalofttegundir og litið sé til þess til lengri tíma að hægt sé að endurvinna ruslahaugana og breyta plastinu í brenni eða olíu. „Við viljum draga úr notkun á plastpokum. Það er í sjálfu sér ekki vel gert með því að bæta við fleiri tegundum af plastpokum. Maíspokinn er ekki efnisendurvinnanlegur eins og plastpokinn og fer alls ekki vel saman með venjulegum plastpokum t.t. eins og í grenndargámunum eða á endurvinnslustöðunum, því að maíspokinn eyðileggur einfaldlega plastið. Straumurinn sem að við erum að safna núna af plastumbúðum hann er ónýtur ef að við setjum of mikið að maíspokum með.“

Ef maíspokar eru settir í moltugerð myndast koltvísýringurog þá gildir að sótsporið er um fimmfalt. Þar verða þeir yfirleitt að klessum sem er erfitt að sigta frá moltunni og því rýrna gæði hennar.

Fjórðungur heimilissorps höfuðborgarbúa í bláar tunnur

Söfnun pappírs og pappa í bláar tunnur án poka er skilvirk aðferð til að draga úr notkun á plastpokum. Talið er að tilkoma bláu tunnunar spari um 6 milljónir plastpoka á ári. Höfuðborgarbúum hefur nú tekist að setja fjórðung af öllu heimilissorpi sínu í bláar tunnur. Þetta er pappír sem er að fullu endurnýtanlegur og nemur um 10 þúsund tonnum á hverju ári. „Þá eru það um 180 milljónir króna á ári sem að bláa tunnan hefur þá sparað í innkaupum á plastpokum.“ 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV