Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mahathir biðst lausnar

24.02.2020 - 09:25
Erlent · Asía · Malasía
epa08225370 Malaysian Prime Minister Mahathir Mohamad delivers his speech during the Malaysian anti-drug month campaign event in Putrajaya, Malaysia, 18 February 2020. The date for the handover of power from Malaysian Prime Minister Mahathir Mohamad to Anwar Ibrahim is expected to be decided during the Pakatan presidential council meeting on February 21.  EPA-EFE/AHMAD YUSNI
Mahathir Mohamad, forsætisráðherra Malasíu. Mynd: EPA-EFE - EPA
Mahathir Mohamad, forsætisráðherra Malasíu, baðst lausnar í morgun og flokkur hans PPBM hefur sagt sig úr ríkisstjórn landsins. Flokkabandalag sem myndað var fyrir þingkosningarnar í Malasíu 2018 er þar með farið út um þúfur.

Mahathir, sem er 94 ára og elstur þjóðarleiðtoga heims, myndaði bandalag með stjórnarandstöðuleiðtoganum Anwar Ibrahim fyrir síðustu kosningar til að koma Najib Razak, þáverandi forsætisráðherra, frá völdum, en Najib var þá sakaður um spillingu, fjársvik og peningaþvætti.

Mahatir hafði verið forsætisráðherra frá 1981 til 2003 og hluta þess tíma var Anwar næstráðandi í stjórn. Árið 1998 spruttu upp deilur milli þeirra um efnahagsmál og var Anwar rekinn og síðar fangelsaður sakaður um samkynhneigð, sem hann kvað ekkert hæft í.

Þegar þeir mynduðu stjórn fyrir tveimur árum var gert ráð fyrir að Anwar tæki við forsætisráðherraembættinu eftir einhvern tíma en ekkert bólar á því og virðist flest benda til að markmiðið sé að koma í veg fyrir það.

Talið er hugsanlegt að Anwar reyni að leita stuðnings annarra flokka við myndun nýrrar ríkisstjórnar, en hann er sagður ætla að ganga á fund konungs í dag.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV