Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Magnús Guðmundsson handtekinn

06.05.2010 - 19:24
Mynd með færslu
 Mynd:
Hinn maðurinn sem sérstakur saksóknari lét handtaka, auk Hreiðars Más Sigurðssonar, er Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg og núverandi forstjóri Havilland bankans. Hann hefur verið yfirheyrður af sérstökum saksóknara og verður líklega farið fram á gæsluvarðhald yfir honum síðar í kvöld eða á morgun.

Sérstakur saksóknari sagði í kvöldfréttum Sjónvarps að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis hafi meðal annars verið lögð til grundvallar handtöku Hreiðars Más. Í skýrslunni kemur nafn Magnúsar fjórum sinnum fyrir. Í tíunda kafla, 3. bindis skýrslunnar segir að Magnús hafi ásamt þeim Hreiðari Má, Ármanni Þorvaldssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings Singer & Friedlander og Sigurði Einarssyni reynt að takmarka ábyrgð starfsmanna við 10% persónulega ábyrgð auk trygginga sem fólust í undirliggjandi andvirði verðmæti hlutanna, sem á þessum tíma var verulega hærra en lánsfjárhæðin.

Þann 12. desember 2006 sendu Magnús og Ármann, tölvubréf af netfangi Magnúsar til Sigurðar Einarssonar og Hreiðars Más og afrit á Ármann Þorvaldsson. Á blaðsíðu 81 í skýrslunni segir:

Í bréfinu kom fram hugmynd um að stjórnendurnir gætu losað sig undan persónulegri ábyrgð vegna lánanna þannig að Kaupþing bæri alla áhættu. Tekið skal fram að innan hornklofa eru skýringar rannsóknarnefndar á hugtökum sem skammstöfuð eru í bréfinu:


,,Sæll Siggi og Hreiðar
Þar sem að Ármann er búinn að ræða þetta við ykkur höfum við talað
okkur saman (samtök loyal CEOa) og komist að þessari hugmynd um bréf
okkar í bankanum:
1. Við stofnum SPV (hver um sig) [eignarhaldsfélag eða Special Purpose
Vehicle] og setjum öll bréf og lán í það félag.
2. Við fáum viðbótarlán uppá að 90% LTV [Loan to Value, eða 90 krónur
að láni fyrir hverjar 100 sem eru í félaginu þegar] sem þýðir að við
tökum út einhvern pening strax.
3. Við fáum heimild fyrir að fá lánað meira ef gengi KB hækkar sem
nemur 90% LTV upp að genginu 1000. Þannig að ef gengið fer yfir
1000 þá getum við ekki fengið meira lánað.
4. Bankinn hefði engin margincall á okkur og myndi taka á sig fræðilegt
tap ef að yrði
Við hefðum áhuga á að nota hluta af þessu fjármagni til að setja inní Kaup
thing Capital Partners (principal investment sjóður bankans)
Kveðja Magnús og Ármann
Eins og við höfum sagt áður þá höfum við rætt þessa hugmynd við Ingólf
líka."

Telur Rannsóknarnefndin tölvubréfið lýsa tiltekinni afstöðu meðal æðstu stjórnenda bankans um hvernig binda megi saman hag hluthafa og stjórnenda. Í tillögunni felist að stjórnendur innan bankans geti innleyst áhættulausan hagnað sinn með því að leggja stöðugt meiri áhættu á bankann og hluthafa.