Eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði frá björgunarsveitinni Ægi þá náði sjórinn vel upp á kjallaraglugga hússins og fólksbíll við húsið nánast kominn á kaf. Mæðgurnar komust ekki sjálfar úr húsi og komu björgunarsveitarmenn þeim til aðstoðar á stórum jeppa sem þeir lögðu upp við tröppur hússins.
Ingibjörg segir að sjórinn hafi verið mjög kaldur. „Mér er enn kalt á tánum.“
Svefnherbergin í kjallaranum
Ingibjörg segir að svefnherbergi þeirra beggja og þvottahús séu í kjallara hússins. Hún hafi lagt sig um tíu leytið og dóttir hennar vakið hana þegar vatn hafi verið farið að flæða inn um kjallaradyrnar. Þær hafi komið sér upp á efri hæðina þar sem eru eldhús og stofa og beðið þar eftir aðstoð. Þegar slökkviliðið kom á staðinn hafi sjórinn verið kominn alveg að húsinu. Í kjallaranum hafi vatnið verið komið í metershæð þegar þær fóru með björgunarsveitarmönnum úr húsinu; kjallarinn hafi fyllst á tæpum hálftíma. Þær eiga fjóra ketti sem einnig var bjargað úr húsinu.
Konur og dýr voru sallaróleg yfir þessu öllu saman, segir Sindri Fanndal í Björgunarsveitinni Ægi.
Aldrei gerst áður
Ingibjörg hefur búið í húsinu í þrjú ár og þetta hafi aldrei gerst áður. Húsið sé byggt árið 1938 og hún viti ekki til þess að þetta hafi gerst áður en hún flutti í húsið. Unuhús sé nær sjónum og venjulega tékki hún á því áður en hún fer að sofa í vondu veðri. Í þetta sinn hafi ekki flætt að Unuhúsi. Þetta hafi komið henni verulega á óvart. Ekki sé óalgengt að vatn komi upp úr klósettinu í vondu veðri en það hafi ekki gerst núna. Hún hafi því hlustað sérstaklega eftir því í morgun.
„Ég sé eftir aukalúrnum í morgun því ég var ekki búin að pakka neinu,“ segir Ingibjörg. Öll fötin þeirra hafi verið í kjallaranum. Hún segir að tjón sé líklega töluvert.
Bíða tíðinda
Hún gerir ráð fyrir að hafa orðið fyrir stórtjóni en svo sé líka óvissa. „Ég býst við að tala við bæjarskrifstofu eftir helgi. Þau hringdu í okkur til að athuga hvort væri í lagi. Ég fæ allar upplýsingar sennilega eftir helgi,“ segir Ingibjörg. Hún segir að slökkviliðsmennirnir hafi sagt henni að það væri ekki hægt að dæla strax, því húsið væri í miðju hafinu.
Þær mæðgur eru nú hjá föður Ingibjargar í Reykjanesbæ og bíði tíðinda af húsinu. Ingibjörg heldur ró sinni. „Ég keypti nýtt garn í gær þannig að ég sest bara róleg með prjónana og bíð eftir að fjari.“