Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Maðurinn við Pablo Discobar stal líka steypubílnum

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Þrítugur karlmaður, sem handtekinn var í nótt, grunaður um aðild að eldsvoðanum á skemmtistaðnum Pablo Discobar, er sá hinn sami og olli stórhættu í síðustu viku, þegar hann stal steypubíl í miðbænum og ók honum meðal annars á móti umferð.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er búist við því að farið verði fram á mánaðarlangt gæsluvarðhald yfir manninum síðar í dag.

Uppfært 18:25 Maðurinn var úrskurðaður í fjögurra vikna langt gæsluvarðhald síðdegis.

Steypubílnum, sem lögregla veitti eftirför í miðbæ Reykjavíkur á miðvikudaginn i síðustu viku, var stolið við Vitastíg. Maðurinn ók niður Laugaveg, eftir Bankastræti og austur Sæbraut og var síðan króaður af við Kassagerðina. Engin slys urðu á fólki.  Mikil mildi þótti að ekki fór verr og er maðurinn talinn hafa valdið almannahættu. Manninum var sleppt að lokinni yfirheyrslu.

Hann var svo handtekinn aftur í nótt, grunaður um aðild að eldsvoða í húsakynnum skemmtistaðarins Pablo Discobar og veitingastaðarins Burro við Veltusund.

Eldurinn kviknaði um klukkan ellefu í gærkvöldi. Allt tiltækt slökkvilið var kallað út, enda er skemmtistaðurinn á þriðju hæð í stóru timburhúsi. Þónokkur eldur logaði í húsinu og mikinn reyk lagði frá því, og um tíma var óttast að eldurinn bærist í samliggjandi hús. Það gerðist þó ekki, slökkvistarf gekk vel og því lauk um klukkan fjögur í nótt. Mikið tjón varð í eldsvoðanum.