Maðurinn sem lofaði að gera ekki leiðinlega list kveður

epa08107456 (FILE) - US artist John Baldessari gives a press conference at Moenchehaus Museum in Goslar, Germany, 04 October 2012 (reissued 06 January 2020). Baldessari died on 02 January 2020 at the age of 88, his foundation confirmed on 05 January 2020.  EPA-EFE/EMILY WABITSCH  GERMANY OUT
 Mynd: EPA-EFE - DPA

Maðurinn sem lofaði að gera ekki leiðinlega list kveður

08.01.2020 - 14:43

Höfundar

Gáskafulli konseptlistamaðurinn John Baldessari er látinn, eftir áratugalanga baráttu við viðtekin viðmið um smekkvísi í listum.

John Baldessari var einn áhrifamesti konseptlistamaður Bandaríkjanna. Hann var sannkallað stórmenni í myndlistarheiminum og atkvæðamikill í listasenunni í Los Angeles um áratugaskeið. Hann féll frá á sunnudaginn var, 88 ára að aldri.

Baldessari sýndi verk sín í Listasafni Reykjavíkur árið 2001. Hann var hálfur Dani og voru Íslendingasögurnar honum hugleiknar þegar hann kom til landsins vegna sýningarinnar. Í sýningarskránni tengdi hann ímynd víkinganna klisjum Hollywood-kvikmynda og sagði í viðtali í Lesbók Morgunblaðsins að sögurnar væru ekki beinlínis í ætt við aðra hátinda bókmenntasögunnar eins og verk Marcels Proust. „Þær fjalla ekki um innri veruleika heldur bardaga, nauðganir, rán og rupl. Þetta eru bara venjulegar ævintýrasögur, eins og vestrar. Slíkar sögur vekja áhuga minn einmitt vegna þess að það er hægt að segja þær aftur og aftur á mismunandi vegu.“

Overlap Series: Double Motorcyclists and Landscape (Icelandic), 2003.

Íslandsheimsóknin átti síðar meir eftir að rata inn í list hans, til að mynda í verkið Double Motorcyclists and Landscape (Icelandic) í Overlap myndaröðinni.

Brenndi öll verkin og bakaði úr þeim smákökur

Baldessari hóf ferilinn í abstraktmyndlist en þreyttist svo mjög á eigin handverki að hann brenndi öll sín verk í líkbrennslustöð í San Diego árið 1970. Öskuna nýtti hann að hluta í smákökubakstur, sem hann sýndi í MoMa listasafninu í New York, og afganginn geymdi hann í duftkeri úr bronsi sem var í laginu eins og bók. 

Verknaðurinn markaði ákveðin endalok á ferli hans en um leið nýtt upphaf. „Eftir að hafa stritað við að mála mynd varð mér litið á ruslið og þá hugsaði ég: Þetta er miklu betra en það sem ég er að gera,“ á Baldessari að hafa sagt og er dæmigært fyrir lítillæti listamannsins.

Hvað ef þú færir fólkinu bara það sem það vill?

Eitt þekktasta verk hans fylgdi í kjölfarið, þegar honum var boðið að sýna verk sín í lista- og hönnunarháskóla í Nova Scotia í Kanada, og endurspeglaði það viðhorf hans til handverks, fyrri verka og listsköpunar í víðari skilningi.

Baldessari sá sér ekki fært að ferðast til Nova Scotia og hitta nemendur skólans og í stað þess að senda verk sín þangað bað hann nemendur um að rita á vegg í sýningarrýminu setninguna „Ég mun ekki gera meira af leiðinlegri list“, líkt og um refsingu væri að ræða. Sömu nemendur og rituðu þessa setningu á veggi sýningarrýmisins gerðu eftirprent af innsetningunni. Verkið vakti spurningar um höfundardeili listaverka og hlutverk listamannsins, þar sem Baldessari veitti óljós fyrirmæli og var í ofanálag fjarri góðu gamni þegar verkið varð til.

epa05010337 A visitor stands in front of the piece 'A large puddle of milk' by US artist John Baldessari in the Staedel Museum in Frankfurt am Main, Germany, 04 November 2015. The exhibition 'John Baldessari. The Staedel Paintings' runs until 24 January 2016. The basis of the piece is the picture 'Cow Pasture under Trees' by Lucas van Valckenborch.  EPA/BORIS ROESSLER
 Mynd: EPA
Maður virðir fyrir sér verkið A Large Puddle of Milk eftir John Baldessari á sýningu í Frankfurt árið 2015.

Baldessari skeytti lítið um skoðanir annarra á hlutverki listarinnar og beitti eigin sköpun gagngert gegn viðteknum hugmyndum um myndlist. „Hvað ef þú færir fólkinu bara það sem það vill? Fólk les tímarit og skoðar ljósmyndir, ekki verk eftir Jackson Pollock,“ sagði hann í viðtali við New Yorker árið 2010 um sýninguna Commissioned Paintings, þar sem hann réð 12 áhugalistamenn til að gera verk fyrir sig.

Í stuttri heimildarmynd um Baldessari, frá árinu 2010, er dregin upp góð mynd af listamanninum. Sögumaður í myndinni er Tom Waits, mikill aðdáandi Baldessaris og ólst að auki upp í sama bæ og hann. Í myndinni lítur Baldessari yfir farinn veg og segir að líklega verði hans helst minnst sem „gaursins sem setti doppurnar á andlitið á fólki,“ og vísar þar til þekkts höfundareinkennis síns.

Tengdar fréttir

Myndlist

Skipsflak þar sem hundruð létust til sýnis

Pistlar

Við munum öll deyja

Myndlist

Ódýrt kaffi, gull og gersemar í boði trölla

Myndlist

Konungar olíumálverksins