Maðurinn með uppþvottaburstann fundinn

Mynd með færslu
 Mynd:

Maðurinn með uppþvottaburstann fundinn

10.06.2019 - 13:35
Maðurinn sem beitti uppþvottabursta eins og hljóðnema í Leifsstöð í gær þegar tyrkneska landsliðið í fótbolta kom hingað til lands er fundinn. Ljóst er að Tyrkir eru afar ósáttir við manninn, sem virðist vera frá Belgíu.

Á Facebook-síðu Corentins Siamang má sjá að Tyrkir eru þegar búnir að hafa uppi á honum en ekki er vitað á hvaða ferðalagi Siamang var í Leifsstöð. 

Tyrkneska karlalandsliðið í fótbolta varð verulega ósátt við komuna til Íslands í gærkvöld. Langan tíma tók að komast í gegnum vegabréfaeftirlitið á Keflavíkurflugvelli eftir að flugvél þeirra lenti á landinu í kvöld. Emre Belözoglu veitti tyrkneskum fjölmiðlum viðtal á flugvellinum þar sem hann kvartaði undan þessu.

Fjöldi fjölmiðlamanna stendur í kringum landsliðsmanninn með hljóðnema á lofti, en á myndbandi sem sýnt er á vefnum FutbolArena sést að einn þeirra sem hafa hópast í kringum Emre heldur á uppþvottabursta. 

Miklar vangaveltur hafa verið uppi um það hver uppþvottaburstamaðurinn sé en það varð ljóst frekar snemma að ekki var um Íslending að ræða. Tyrkir hafa nú fundið manninn, Corentin Siamang, og eru farnir að skilja eftir athugasemdir við nýjustu mynd hans á Facebook.

 

Uppfært 14:24
Siamang hefur nú fjarlægt myndina af Facebook-síðu sinni.