Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Maður sekkur inn í þennan heim og trúir honum“

Mynd: RÚV / RÚV

„Maður sekkur inn í þennan heim og trúir honum“

15.02.2020 - 12:23

Höfundar

Kvikmyndagerðarmaðurinn Þorsteinn Gunnar Bjarnason sá myndina Oh Brother Where Art Thou þegar hún var sýnd í kvikmyndahúsum um síðustu aldamót. George Clooney verður á skjám landsmanna í kvöld þegar myndin, sem byggir lauslega á Ódysseifskviðu Hómers, verður sýnd í Bíóást.

Coenbræðra myndin Oh Brother Where Art Thou? kom út árið 2000 og skartar hún George Clooney og John Turturro í aðalhlutverkum. Sagan er grátbrosleg, gerist árið 1937 í Mississippi í kreppunni miklu og segir frá þremur flækingum sem stinga af úr þrælkun og fara saman í leiðangur til að ljúka ákveðnum erindagjörðum. Á ferð sinni rekast þeir á ýmsa áhugaverða karaktera.

Þorsteinn Gunnar Bjarnason kvikmyndagerðarmaður sá myndina þegar hún var sýnd í Háskólabíói og fannst myndin mjög skemmtileg, sérstaklega finnst honum tónlistin og karaktersköpunin vel heppnuð. „Sem dæmi þá hitta þeir í byrjun svartan mann við járnbrautateina. Hann heitir ekki neitt en það er eins og hann sé úr annarri vídd eða annarri veröld,“ rifjar Þorsteinn Gunnar upp. „Hann segir til um framtíð þeirra og mér finnst hann svolítið segja það sem John Lennon sagði, Life is what happens when you're busy making other plans,“ eða lífið er það sem hendir þegar þú ert upptekin við að gera önnur plön.

Í myndinni mætast margar ólíkar kvikmyndastefnur sem gerir erfitt að flokka hana samkvæmt Þorsteini. „Myndin er ævintýramynd, gamanmynd og söngvamynd. Þetta er kannski minnst drama en það er dramatískur undirtónn,“ segir hann. Í frægu atriði í myndinni hljómar lag sem varð mjög vinsælt í kjölfarið, lagið Man of constant sorrow sem er amerískt þjóðlag í flutningi Soggy Bottom Boys og fékk það mikla spilun eftir að myndin kom út. „Frægasta senan er þegar þremenningarnir syngja ásamt svarta vini sínum lagið sem varð rosa vinsælt í kjölfarið.“

Hann hvetur fólk til að taka sérstaklega eftir kvikmyndatökunni og myndmálinu. „Myndin er hástemmd og þetta eru ýktir karakterar og það er það sem Coenbræður geta gert og gera oft. Þeir búa til ímyndaðan heim. Það tekst hjá þeim og þeir og maður sekkur inn í og trúir þessum heimi,“ segir hann að lokum. 

Myndin verður sýnd í Bíóást á RÚV í kvöld klukkan 21:10.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Margar atrennur frá breyskleika til góðmennsku

Kvikmyndir

Nefndi hundinn í höfuðið á teiknimyndapersónu