Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Maður lýsir yfir ábyrgð á amfetamínframleiðslu

16.10.2019 - 12:17
Sumarbústaður í Borgarfirði þar sem var framleitt amfetamín.
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Maður sem ekki var ákærður fyrir stóru amfetamínframleiðsluna í Borgarfirði hefur lýst yfir ábyrgð á framleiðslunni. Varahéraðssaksóknari segir að slíkt sé ekki óþekkt en þrátt fyrir yfirlýsinguna sé ákæran í málinu byggð á rannsóknargögnum.

Fyrirtaka í stóra amfetamín-framleiðslumálinu var í héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Þrír voru ákærðir fyrir að framleiða átta og hálft kíló af amfetamíni í sumarbústað í Borgarfirði ásamt því að rækta 200 kannabisplöntur í útihúsi við bæ á Suðurlandi. Alvar Óskarsson og Einar Jökull Einarsson eru meðal ákærðu, en þeir hlutu báðir þunga dóma í Pólstjörnu-málinu svokallaða. Alvar hlaut sjö ára dóm og Einar Jökull níu og hálft ár. 

Fram kom í héraðsdómi Reykjavíkur í dag að verjendur og saksóknari hafi fengið bréf frá manni sem tengist ekki málinu. Samkvæmt heimildum fréttastofu kemur fram í bréfinu að sá maður lýsi sig ábyrgan í málinu og taki á sig alla sök. Fram kom í héraðsdómi í dag að lögreglan sé búin að taka skýrslu af viðkomandi en í ljósi þess hve löng hún var átti eftir að klára að skrifa hana upp fyrir málsaðila. Endurrit skýrslunar verði því lagt fram síðar. 

Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, segir í samtali við fréttastofu að þetta sé ekki óþekkt í sakamálum og sé skoðað hverju sinni. Hún ítrekar þó að í þessu máli liggi fyrir ákæra á hendur þremur mönnum sem sé byggð á rannsóknargögnum. Skýrsla hafi verið tekin af manninum og nú þurfi að sjá hvort yfirlýsing hans hafi einhver áhrif.