„Maður er bara: Jess!“

Mynd: RÚV / RÚV

„Maður er bara: Jess!“

04.06.2019 - 11:48

Höfundar

„Ég held að maður sé bara ósköp einföld sál, vinni mest með ástina og dauðann í verkum sínum eins og flestir. Ég held að þetta sé bara ekkert það flókið,“ segir Ragnar Kjartansson sem nýlega opnaði sýninguna Death is elsewhere í Metropolitan-safninu í New York.

Death is Elswhere er myndbandsverk og er að sögn Ragnars tilkomið af stefnubreytingu safnsins, sem alla jafna sýnir klassísk verk löngu látinna listamanna. „Það er smá fallegt þegar maður horfir á þessi verk eftir löngu látið fólk, að þegar þú horfir á verkið þá er dauðinn vissulega annars staðar, því að verkin eru lifandi. Það er svo fallegt alltaf,“ segir hann. 

Titil verksins sótti Ragnar í bókasafn sitt. „Dauðinn er annars staðar er bara setning sem ég las á bókarkili heima hjá mér, bók eftir Alexander Dumbadze um hollenska listamanninn Bas Jan Ader. Bókin heitir Death is Elsewhere. Þegar við vorum að semja lagið sem þetta verk er búið til úr þá voru Bryce og Aron svo fljótir með grunninn og ég og Georg Kristinn að búa til melódíur og ég pikkaði textana bara svona út úr bókahillunni,“ segir Ragnar. „Þetta hefur alltaf höfðað mjög sterkt til mín, þessi kjölur, Death is Elsewhere. Og svo gerðum við þetta verk og þá ákvað ég að lesa þessa bók. Þetta er frábær bók sko.“

Gamla tvíburatrixið

Metropolitan-safnið er meðal stærstu og virtustu listasafna heims og í uppáhaldi hjá Ragnari sjálfum. „Þetta er alla vega geggjuð tilfinning og dásamlegt safn. Þetta er svona safn sem maður elskar að koma í þegar maður kemur til New York. Ég man að mér fannst svo gott að þegar Andy Warhol var spurður hvar hann vildi sýna sagði hann „The Met, darling,“ þannig að maður er bara „jess!“.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Í verkinu sést fólk labba í hringi, tvennir tvíburar sem rugla einhverja áhorfendur í rýminu. „Við köllum þetta tvíburatrixið og það er smá skemmtilegt í nútímanum að mjög margir sem sjá verkið halda að þetta sé einhvern veginn klippt til, sé einhvern veginn tölvugert, af því að þetta er sama fólkið sitt hvoru megin við mann en þetta er bara gamla góða tvíbbatrixið.“ 

Allt samkvæmt áætlun

Verkið er tekið upp á sumarbústaðarjörð í Skaftártungu. „Þetta er tekið upp akkúrat á miðnætti kringum sumarsólstöður þannig að miðnætti var þarna kringum hálftvö, tvö að nóttu til. Þetta er dálítill hljóðskúlptúr, tónlistin er alltaf að hreyfast miðað við hvernig þau ganga í hringi og svo er nátturulega eitthvað fallegt tilgangsleysi í þessum stöðuga hring sem þau ganga í. Kristín og Gyða og Bryce og Aron er fólk sem ég hef unnið með áður í verkum og eru frábærir vinir og samstarfsfólk og við gerðum þetta verk bara í Skafttártungunni án þess að hafa hugmynd um hvar þetta yrði sýnt. Þannig að verkið var bara gert til þess að gera verkið og svo var þetta að marínerast í stúdíóinu og verið að hljóðvinna þetta. Svo kom heimsókn frá Metropolitan sem voru bara að skoða einhver verk og síðan kemur allt í einu þetta boð um hvort það megi frumsýna þetta verk hér í Metropolitan,“ segir Ragnar. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Hann tekur undir að talsverð upphefð sé fólgin í boðinu. „Það er náttúrulega svakalegur heiður en dálítið stressandi því ég náttúrulega hef ekki séð verkið sjálfur og enginn hefur séð það. Og í fyrsta sinn sem maður sér verkið er bara hérna í Metropolitan í þessu mikla musteri. Þannig að ég var mjög feginn að verkið virkar. Ég segi eins og Hatari, það er allt samkvæmt áætlun.“

Verkið var þannig ekki hugsað sérstaklega fyrir þetta safn. „Sem betur fer, ég held að ef ég hefði verið að hugsa þetta fyrir Metropolitan safnið þá hefði það ekki verið svona einfalt og ljóðrænt, þá hefði ég ábyggilega orðið miklu meira flamboyant, sem hefði verið miklu verra.“

Tengdar fréttir

Myndlist

„Ekki hollt fyrir auðmýktina“

Tónlist

„Það er ekkert gaman að þessu“