Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Macchiarini dæmdur í 16 mánaða fangelsi á Ítalíu

13.11.2019 - 23:13
Plastbarkalæknirinn Paolo Macchiarini. Kveikur.
 Mynd: RÚV
Ítalski skurðlæknirinn Paolo Macchiarini hefur verið dæmdur í sextán mánaða fangelsi á Ítalíu. Sænska ríkisútvarpið greinir frá.

Dómstóll í Flórens sakfelldi Macchiarini á föstudag, meðal annars fyrir að misnota aðstöðu sína og falsa gögn. Brotin eru sögð hafa átt sér stað nokkrum árum áður en málin honum tengd við Karólinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi urðu kunn. 

SVT segir að brotin tengist aðgerð sem hann hafi gert á vini sínum, sem hefði í raun átt að borga fyrir aðgerðina vegna þess að hann hafi ekki átt evrópskt sjúkraskírteini. Þá var Macchiarini einnig sakfelldur fyrir að falsa biðlista og önnur gögn á meðan hann starfaði á sjúkrahúsinu í Flórens á árunum 2009 til 2012. 

Erítreumaðurinn Andemariam Beyene sem búsettur var hér á landi var fyrsta manneskjan sem Macchiarini græddi plastbarka í. Hann lést um það bil 30 mánuðum síðar, eftir erfiða fylgikvilla eftir ígræðsluna. Hann var 36 ára. Hann lét eftir sig eiginkonu og þrjá unga syni.

Í Svíþjóð heldur rannsóknin á Macchiarini áfram. Hann er grunaður um að hafa valdið tveimur sjúklingum sínum alvarlegum skaða og orðið nokkrum þeirra að bana. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV