Má lítið út af bregða hjá litlum heilbrigðisstofnunum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Óðinn Svan Óðinsson
Sautján hafa greinst með kórónuveirusmit í Húnaþingi vestra. Yfirlæknir á Hvammstanga hefur áhyggur af mönnun heilbrigðisstofnana, lítið megi út af bregða.

Sautján eru smitaðir af kórónuveirunni í Húnaþingi vestra, bæði á Hvammstanga og í nærsveitum. Níutíu og tvö sýni hafa verið tekin og beðið er eftir niðurstöðum úr 18. Um 25% íbúa sveitarfélagsins eru í sóttkví, en allir eru í úrvinnslusóttkví þar sem aðeins einn má yfirgefa heimilið hverju sinni.

Litlar og brothættar einingar

Geir Karlsson, sóttvarnalæknir og yfirlæknir Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á Hvammstanga segir að þrátt fyrir allt, hafi gengið vel að halda heilbrigðisstofnunum gangandi. Hann hafi þó áhyggjur. „Já við höfum það, við reyndar gripum strax til dálítið stórra aðgerða um leið og okkur sýndist vera dálítið útbreytt smit í samfélaginu. En þetta eru bara svo litlar einingar að um leið og þú missir einn mann út þá geturðu lent í vandræðum“.

Þetta haldist gangandi eins og staðan er í dag en þau séu komin í vandræði ef einn starfsmaður detti út í viðbót. Hann segir minna hafa verið af jákvæðum sýnum síðustu tvo prufudaga „svo við erum að vonast til að við höfum náð utan um þetta en það skýrist kannski betur í dag“.

Næsta skref er bakvarðasveitin

Alla jafna starfa tveir læknar og tveir hjúkrunarfræðingar á heilsugæslunni. Sjálfur þurfti Geir ásamt Kristínu konu sinni sem er hjúkrunarfræðingur að fara í sóttkví þegar fyrsta smit kom upp. Hinn læknirinn er erlendis og fer því í lögbundna sóttkví þegar hann kemur heim. Af þeim fjórum er því einn hjúkrunarfræðingur sem sinnir hefðbundinni vinnu en búið að fá lækni og annan hjúkrunarfræðing í afleysingar.

Geir hefur sinnt vinnu að heiman og vonast til að losna úr sóttkví eftir helgi en segir búið að huga að framhaldinu. „Næstu skref væri að reyna að fá einhvern úr þessari bakvarðasveit, nú veit maður ekki alveg hvernig gengur að fá fólk út á land en það er stefnan“. Þá sé líka bakland í sjúkrahúsinu á Akranesi þar sem dregið verður úr starfsemi. Hann segir smituðum einstaklingum vel fylgt eftir af COVID-teymi Landspítalans, einstaklingarnir séu heima hjá sér og enginn alvarlega veikur.