Má kona skrifa um eitraða karlmennsku?

Mynd: Díana Sjöfn Jóhannsdóttir / Díana Sjöfn Jóhannsdóttir

Má kona skrifa um eitraða karlmennsku?

23.03.2020 - 18:08

Höfundar

Díana Sjöfn Jóhannsdóttir sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu, Ólyfjan, seint á síðasta ári. Kveikjan að sögunni voru sögur af sjómennsku sem pabbi hennar hafði sagt henni. Eigi að síður gerist sagan núna í Reykjavík og á útihátíð í ónefndum smábæ úti á landi.

Í raun fjallar skáldsagan Ólyfjan ekki um lífið úti á sjó, heldur einmitt um lífið í landi þegar sjómaðurinn ungi, Snæi, kemst í langþráð helgarfrí með fullt af pening í vösunum. Og hvernig má verja þessari ofgnótt tíma og peninga? Svarið er einfalt: djamma undir drep, kaupa sér alklæðnað hjá Sævari Karli og nóg af bjór. Síðan hefst rúnturinni, fyrst í spilavíti og síðan barirnir hver á fætur öðrum. Að lokum má skella sér á bæjarhátíð í öðrum landshluta á leigubíl.

Við skrifin sóttu efasemdir  að Díönu Sjörn um að hún sem kona hefði leyfi til að skrifa um þá eitruðu karlmennsku sem sagan lýsir. „Ég var að hugsa um þessa eitruðu karlmennsku og til þess að átta mig á henni gerði ég Snæa viljandi að steríótýpu þess sem vill lifa hátt og ekki axla neina ábyrgð,“ segir Díana Sjöfn. „Líklega var það bókmenntafræðingurinn í mér sem ýtti mér út það að gera söguna að metaskáldsögu.“

Metaskáldsaga (e. metafiction) hefur stundum verið kallað sjálfsaga eða sögusögn á íslensku og vísar hugtakið til sögu sem fjallar með einhverjum hætti um tilurð sína og tilvist. Þann snúning tekur skáldsagan Ólyfjan einmitt undir lokin þegar þau hittast höfundur skáldsögunnar og aðalpersóna hennar. Sjálfsögupælingarnar trufla þó aldrei meginframvindu sögunnar um helgarfrí Snæa, sem hefur tekið félaga sinn af sjónum með sér á djammið. Hann þekkir Ragga reyndar lítið enda sá nýr á dallinum. Saman eru þeir einhvers konar Don Kíkóti og Sancho Pansa á djamminu í Reykjavík í dag en Snæi vill ráða og láta Ragga dást að sér fyrir töffaraskapinn og það er Snæi sem segir söguna þótt alvitur sögumaður stýri honum.

Lýsingar á djamminu í Reykjavík í skáldsögunni Ólyfjan eru afar sannfærandi . En slíkt ofurdjamm getur ekki endað öðruvísi en með djöfullegum timburmönnum sem læða að ýmsum spurningum sem auðvelt hafði verið að útiloka í skemmtunarvímu og stundum er aðeins hægt að bregðast við með ofbeldi þegar víman hefur runnið sitt skeið. „Snæi er soldil andhetja,“ segir Díana, „Fólki mun kannski ekkert líka vel við hann. Mér þykir rosalega vænt um hann og ég vorkenni honum smá. Hann tekur hræðilega rangar ákvarðanir og hann kann ekki að umgangast konur, þorir það ekki. Hann er í raun óöruggur og stöðugt að bera sig saman við aðra karlmenn, finnst t.d. að hann ætti frekar að vera í viðskiptifræði í háskólanum en á sjó.“ Undir lok bókarinnar eiga svo höfundurinn og söguhetja hans fund í sundlaugunum og ræða karlmennsku og skáldskap. Hvort niðurstaða fæst er svo önnur saga.

Díana Sjöfn er menntuð í bókmenntafræði, ritlist og menningarfræði. Árið 2018  sendi hún frá sér ljóðabókina Freyja í ljóðabókaseríu Meðgöngljóða. Hún vinnur nú að nýrri skáldsögu.